Hópur sem stóð að átakinu „Þjóðareign“ árið 2015, og undirskriftasöfnun gegn afhendingu makrílkvóta í meira en eitt ár í senn, hefur sent áskorun til forseta Alþingis og allra þingflokksformanna, þar sem þeir fara fram á að fram fari fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um tvær tillögur um orðalag auðlindaákvæðis í stjórnarskrá. Lagt er til að atkvæðagreiðslan fari fram ekki síðar en í lok júní 2020.
Hópurinn sendi með tillögu til þingsályktunar sem hann beinir til forsætisnefndar Alþingis og þingflokksformanna að lögð verði fyrir þingið. Aðstandendur átaksins eru Agnar K. Þorsteinsson, Bolli Héðinsson, Guðrún Pétursdóttir, Jón Sigurðsson, Jón Steinsson og Þorkell Helgason.
Tillögurnar tvær eru eftirfarandi:
I. Tillaga Stjórnlagaráðs í 34. gr. í frumvarpi til stjórnarskipunarlaga, sbr. þingskjal 3, 3. mál á 140. löggjafarþingi:
Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið auðlindirnar, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða veðsetja.
Til auðlinda í þjóðareign teljast náttúrugæði, svo sem nytjastofnar, aðrar auðlindir hafs og hafsbotns innan íslenskrar lögsögu og uppsprettur vatns- og virkjunarréttinda, jarðhita- og námaréttinda. Með lögum má kveða á um þjóðareign á auðlindum undir tiltekinni dýpt frá yfirborði jarðar.
Við nýtingu auðlindanna skal hafa sjálfbæra þróun og almannahag að leiðarljósi.
Stjórnvöld bera, ásamt þeim sem nýta auðlindirnar, ábyrgð á vernd þeirra. Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda eða annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.
II. Tillaga sem forsætisráðuneytið hefur birt í samráðsgátt stjórnvalda, mál nr. 128/2019, birt 10. maí 2019.
Auðlindir náttúru Íslands tilheyra íslensku þjóðinni. Nýting auðlinda skal grundvallast á sjálfbærri þróun.
Náttúruauðlindir og landsréttindi sem ekki eru háð einkaeignarrétti eru þjóðareign. Enginn getur fengið þessi gæði eða réttindi tengd þeim til eignar eða varanlegra afnota. Handhafar löggjafarvalds og framkvæmdarvalds fara með forræði og ráðstöfunarrétt þeirra í umboði þjóðarinnar.
Veiting heimilda til nýtingar á náttúruauðlindum og landsréttindum sem eru í þjóðareign eða eigu íslenska ríkisins skal grundvallast á lögum og gæta skal jafnræðis og gagnsæis. Með lögum skal kveða á um gjaldtöku fyrir heimildir til nýtingar í ábataskyni.
Nauðsynlegt að fá álit þjóðar
Í greinargerð tillögunnar segir að lagt sé til að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um nýtt ákvæði í stjórnarskrá sem taki af skarið um auðlindir í almannaeigu, þær auðlindir sem ekki eru þegar háðar einkaeignarrétti. Um áratugaskeið hafi verið rætt um nauðsyn þess að setja í stjórnarskrá skýr og skilmerkileg ákvæði þessu skyni. „Orðalag auðlindaákvæðis hefur verið til umfjöllunar hjá þjóðinni um langa hríð og meðal þeirra viðfangsefna sem hlutu hvað mesta umfjöllun á þjóðfundinum sem efnt var til 2010 og síðan hjá Stjórnlagaráði sem starfaði sumarið 2011. Tillaga um auðlindaákvæði Stjórnlagaráðs er því önnur þeirra hugmynda sem lagt er til að kjósendur fái að tjá sig um.
Nú hefur forsætisráðuneytið kynnt tillögu að auðlindaákvæði samkvæmt ákvörðun 13. fundar formanna stjórnmálaflokka, sem sæti eiga á Alþingi, um stjórnarskrármál haldinn föstudaginn 10. maí 2019.
Ljóst er að mikið ber á milli þessara tillagna og því nauðsynlegt að fá álit þjóðarinnar, hins náttúrulega stjórnarskrárgjafa, þó það verði ekki nema með ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Efna mætti til slíkrar atkvæðagreiðslu samhliða forsetakosningum sem kunna að verða haldnar 27. júní n.k. þótt forsetakosningarnar séu ekki nauðsynleg forsenda þess að efnt sé til þjóðaratkvæðagreiðslu um jafn brýnt málefni og hér um ræðir.“
Söfnuðu næstum 54 þúsund undirskriftum
Árið 2015 var sett á fót áskorun til forseta Íslands um að setja ráðstöfun á fiskveiðiauðlindinni til lengri tíma en eins árs í þjóðaratkvæðagreiðslu ætla að ná miklu flugi. Tilefnið var fyrirliggjandi frumvarp Sigurðar Inga Jóhannssonar, þáverandi sjávarútvegsráðherra, um að ráðstafa makrílkvóta til lengri tíma en eins árs án þess að komið væri í stjórnarskrá ákvæði sem tryggði eign þjóðarinnar á auðlindinni og að hún fengi fullt gjald fyrir afnot hennar.
Aðstandendur átaksins voru Agnar K. Þorsteinsson, Bolli Héðinsson, Guðrún Pétursdóttir, Henný Hinz, Jón Sigurðsson, Jón Steinsson og Þorkell Helgason.
Þegar forseta Íslands voru afhentar undirskriftirnar í júlí 2015 voru þær orðnar 53.571. Það reyndi þó ekki á synjunarvald forsetans. Málinu var frestað og varð ekki að lögum. Makríl var síðan kvótasettur fyrr á þessu ári, 2019, með lögum. Það var gert þrátt fyrir að enn skorti á ákvæði í stjórnarskrá sem segi til um þjóðareign yfir auðlindum landsins.
Makríl var svo kvótasettur í fyrra.