Meirihluti bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar og Guðmundur Gunnarsson bæjarstjóri hafa komist að samkomulagi um starfslok Guðmundar. Hann lætur af störfum nú þegar.
Í tilkynningu segir að ástæða starfsloka sé ólík sýn á verkefni á vettvangi sveitarfélagsins. „Telja aðilar það sveitarfélaginu fyrir bestu að leiðir skilji. Það mun skýrast á allra næstu dögum hvernig ráðningu á næsta bæjarstjóra verður hagað.“ Guðmundur segir í samtali við Kjarnann að starfslokin hafi átt sér stuttan aðdraganda. Hann vill þó ekki tjá sig frekar um málið en það sem fram kemur í tilkynningunni.
Þangað til ráðið verður í starfið mun bæjarritari, sem er staðgengill bæjarstjóra, gegna því. Í tilkynningunni óskar meirihlutinn Guðmundi velfarnaðar og þakkar honum fyrir samstarfið. „Guðmundur vill koma á framfæri einlægum þökkum til íbúa Ísafjarðarbæjar fyrir frábærara viðtökur og ánægjulegt samstarf. Hann segir það heiður að hafa fengið tækifæri til að vinna að mikilvægum hagsmunamálum Vestfirðinga með kraftmiklu starfsfólki sveitarfélagsins. Það eru spennandi og krefjandi verkefni framundan í Ísafjarðarbæ og rík ástæða til að horfa björtum augum til framtíðar.“
Guðmundur var ráðinn í starf bæjarstjóra í ágúst 2018 af meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem myndaður var þar eftir sveitarstjórnarkosningarnar fyrr á því ári. Hann er með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum frá Háskólanum í Reykjavík og B.A. próf í fjölmiðlafræði frá Háskólanum á Akureyri. Áður en Guðmundur tók við starfi bæjarstjóra hafði hann starfað þrjú ár sem framkvæmdastjóri AFS á Íslandi en áður stýrði hann alþjóðasviði 66° NORÐUR og var einnig frétta- og dagskrárgerðarmaður RÚV um nokkurra ára skeið.
Starfslok Guðmundar hafa greinilega ekki átt sér langan aðdraganda. Hann vakti umtalsverða athygli á síðustu vikum með framgöngu sinni eftir að snjóflóð féllu innan sveitarfélagsins. Á föstudag var greint frá því að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefðu ákveðið að skipa starfshóp til að móta tillögur um aðgerðir til að treysta atvinnulíf og búsetu á Flateyri við Önundarfjörð í kjölfar snjóflóðsins þann 14. janúar síðastliðinn.
Verkefni starfshópsins á að vera að kanna leiðir til að byggja upp traust íbúa Flateyrar á samfélagslegum innviðum og gera tillögur um aðgerðir sem treyst geta stoðir byggðarinnar.
Á meðal þeirra sem skipaðir voru í þann starfshóp var Guðmundur.