„Þegar leiðrétting á kjörum ríflega 1.800 borgarstarfsmanna og fjölskyldna þeirra er komin til áhrifa væri það á við tæplega fjóra bragga á ársgrundvelli. Á samningstímanum myndi rekstrarafgangur borgarinnar dekka kostnaðinn margfalt.“
Þetta kom fram á blaðamannafundi Eflingar sem haldinn var í tilefni kjaradeilu við Reykjavíkurborg en hann fór fram í Bragganum, Nauthólsvegi 100, í dag.
Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, gerði grein fyrir því hvað launahækkanir á lægstu launum starfsmanna borgarinnar myndu kosta Reykjavíkurborg í samanburði við kostnað sveitarfélagsins við nýlega endurnýjun Braggans. Hann sagði að fjármagnið væri fyrir hendi hjá Reykjavíkurborg.
Þá kom fram á kynningunni að framkvæmd launahækkunar næmi um 22 til 52 þúsund krónur á mánuði fyrir laun undir 445 þúsund á mánuði. Launahækkunin yrði framkvæmt í tveimur áföngum. Í fyrsta lagi þann 1. september næstkomandi þar sem 56 prósent af kostnaðaráhrifum myndu koma fram og í öðru lagi þann 1. mars á næsta ári þar sem 100 prósent af kostnaðaráhrifum myndu koma fram.
Áætluð meðaltalshækkun á mann er reiknuð út frá fjölda í hverjum launaflokki, starfshlutfalli og álögum vegna vaktavinnu og yfirvinnu. Gert er ráð fyrir 24 prósent viðbót vegna launakostnaðar og 1.850 starfsmönnum.
Borgin gerir ráð fyrir rekstrarafgangi
Enn fremur benti Viðar á að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2020-2024 hefði nú þegar verið kynnt þar sem gert væri ráð fyrir taxtahækkunum sem samið hefði verið um á almennum vinnumarkaði í apríl 2019 og sem Efling hefði fallist á gagnvart borginni. Einnig væri gert ráð fyrir launaskriði í áætluninni.
„Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árin 2020-2024 gerir ráð fyrir miklum rekstrarafgangi og mjög vaxandi eftir 2021. Rekstrarafgangur (rekstrarniðurstaða með fjármagnsliðum) er á bilinu 2-7 milljarðar á ári á tímabilinu 2020 til 2023,“ kom fram í kynningunni.
Samkvæmt niðurstöðum Eflingar yrðu launahækkanir 0,39 til 1,87 prósent heildaraukning á launakostnaði borgarinnar á samningstímanum og 22 prósent af rekstrarafgangi borgarinnar árið 2023 þegar kostnaður væri að fullu kominn fram í lok samningstíma. Að meðaltali væru þær 35 prósent af rekstrarafgangi yfir samningstímann. Þar með næmi árlegur kostnaðarauki, þegar hann væri að fullu fram kominn, tæplega fjórum bröggum, eins og fram hefur komið.
Axlaði pólitíska ábyrgð og sýndi hugrekki
Viðar benti á fundinum á fordæmi þessu til stuðnings þegar Steinunn Valdís Óskarsdóttir þáverandi borgarstjóri skipaði jafnréttisráðgjafa Reykjavíkurborgar í samninganefnd borgarinnar árið 2005. Í samtali við Morgunblaðið á sínum tíma sagðist Steinunn Valdís með þessum hætti vilja sýna vilja sinn í verki í því að jafna launamun kynjanna og hækka laun kvenna sem væru að stórum hluta starfsmenn borgarinnar.
Viðar sagði að hún hefði með þessu axlað pólitíska ábyrgð, stigið fram og sýnt hugrekki.
Gefur lítið fyrir að hækkanir muni valda „höfrungahlaupi“
Framkvæmdastjórinn svaraði í gær á Facebook-síðu sinni þeirri spurningu hvort þessar launahækkanir myndu valda svokölluðu „höfrungahlaupi“ og sagði að slíkt myndi gerast þegar hópar á meðallaunum og háum launum tækju til sín launahækkanir lægra launaðra hópa í prósentum og fengju þannig út hærri krónutöluhækkanir fyrir sig. Þannig leiddu hækkanir lægstu launa ekki til breyttrar samsetningar á launastiganum, og ekki til jöfnuðar.
„Höfrungahlaup er ekki þegar lægstu laun eru hækkuð með stiglækkandi krónutöluhækkunum eingöngu á neðsta bili launaskalans. Það er hnitmiðuð aðgerð sem leiðir til aukins jöfnuðar. Hún er andstæðan við höfrungahlaup. Í slíkri aðgerð er ekkert, hvorki prósenta né krónutala, sem hærra launuðum hópum býðst að endurtaka,“ skrifaði hann.
Þá telur hann að slíka aðgerð hjá einu stéttarfélagi megi endurtaka hjá öðrum stéttarfélögum með félagsmenn á sömu launabilum, án þess að það feli í sér höfrungahlaup.
Hægt er að horfa á upptöku af blaðamannafundinum hér fyrir neðan.
Blaðamannafundur Eflingar í BragganumHvað myndi kosta Reykjavíkurborg að leiðrétta kjör sinna lægst launuðu starfsmanna? Kynning í Bragganum við Nauthólsvík á kostnaðarmati.
Posted by Efling on Monday, January 27, 2020