Ákvörðun Financial Action Task Force (FATF) að setja Ísland á gráan lista samtakanna hefur haft þau áhrif að upp hafa komið tilvik þar sem greiðslur til íslenska viðskiptabanka eða viðskiptamanna þeirra hafa tafist. Auk þess eru dæmi um að erlendir bankar hafi hafnað því að hafa milligöngu um greiðslu til og frá landinu.
Þetta kemur fram í frétt á vef Seðlabanka Íslands þar sem greint er frá því að Fjármálaeftirlitið, sem nú heyrir undir Seðlabankann, hafi kallað eftir upplýsingum frá 15 eftirlitsskyldum aðilum í lok desember síðastliðnum um hvort ákvörðun FATF að setja Ísland á gráa listann hafi haft áhrif á starfsemi þeirra.
Um var að ræða alla fjóra viðskiptabankanna (Landsbankann, Arion banka, Íslandsbanka og Kviku), þrjá greiðsluþjónustuveitendur, öll fjögur tryggingafélögin (VÍS, TM, Sjóva og Vörður), þrjá lífeyrissjóði, Kauphöll Íslands og Nasdaq verðbréfamiðstöð. Samkvæmt upplýsingum frá sem Fjármálaftirlitið fékk virðist ákvörðun FATF enn sem komið er ekki hafa haft áhrif á starfsemi vátryggingafélaga, lífeyrissjóða, Kauphallarinnar og verðbréfamiðstöðvarinnar.
Í tilviki viðskiptabanka hafi viðskiptum við þá eða viðskiptamenn þeirra ekki verið slitið en upp hafi komið einstök tilvik þar sem greiðslur hafa tafist. „Einnig eru örfá dæmi um að erlendir bankar hafi hafnað því að hafa milligöngu um greiðslu til og frá landinu. Í nokkrum tilvikum hefur þó verið óskað eftir frekari skýringum og/eða upplýsingum frá eftirlitsskyldum aðilum í tengslum við aukna áreiðanleikakönnun. Fram kom í svörum frá einhverjum aðilum að erfitt væri að greina á milli þess hvort viðbrögð erlendra aðila mætti rekja til veru Íslands á FATF-listanum eða til aukinnar árvekni almennt gagnvart peningaþvætti.“
Svört skýrsla leiddi til viðbragða
Alþjóðlegur vinnuhópur um um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, Financial Action Task Force (FATF), skilaði kolsvartri úttekt á frammistöðu Íslands í málaflokknum í apríl í 2018. Í kjölfarið var gripið til mikils átaks sem í fólst að uppfæra lög, regluverk og framfylgni eftirlits með peningaþvættis hérlendis.
Ein af athugasemdunum sem FATF gerði sneri að því að ekki þurfti að greina frá raunverulegum eigendum félaga á Íslandi. Enda felst í því að þekkja ekki viðskiptavininn, að þekkja ekki hvaðan peningarnir hans koma.
Kjarninn greindi frá því 22. desember síðastliðinn að Fjármálaeftirlitið hefði gert athugasemdir við mat allra íslensku viðskiptabankanna á upplýsingum um raunverulega eigendur fjármuna eða félaga sem eru, eða hafa verið, í viðskiptum við þá. Í niðurstöðum athugana eftirlitsins á peningaþvættisvörnum þeirra, sem hófust í kjölfar þess að FATF birti skýrslu sína um slakar peningaþvættisvarnir Íslands, voru gerðar athugasemdir við þeir hafi ekki metið upplýsingar um raunverulega eigendur með sjálfstæðum hætti.
Nokkur dæmi þegar opinberuð
Þótt að FATF hafi ekki kallað eftir því sérstaklega að sérstakar og umfangsmeiri áreiðanleikakannanir yrðu framkvæmdar á íslenskum viðskiptavinum alþjóðlega á meðan að Ísland væri á gráa listanum þá er vera Íslands á honum mikill orðsporshnekkir, og getur leitt til þess að fyrirtæki taki slíkt upp sjálf.
Þegar hefur verið greint frá dæmum þar sem veran á gráa listanum hefur valdið vandræðum fyrir íslenska aðila. Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, sagði við Kjarnann í október að fyrirtækið hefði fengið fyrirspurn um veru Íslands á gráa listanum þegar það var í viðræðum um fjármögnun skömmu áður. Vera Íslands á listanum hefði þó ekki áhrif á starfsemi eða fjármögnun Össurar þar sem að hún fari fram í gegnum erlend dótturfélög. Það væri hins vegar mjög alvarlegt mál að Ísland sé á lista sem þessum að mati Jóns.
Í nóvember í fyrra var greint frá því að Ísland hefði verið sett á ista þróunarbanka Kýpur (Cyprus Development Bank eða CDB) yfir lönd sem ekki er heimilt að opna á millifærslur af neinum toga.