Sérstök umræðu var á Alþingi í vikunni um að greiða út persónuafslátt en málshefjandi var Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata. Hún telur að slík aðgerð gæti orðið námsmönnum og hinum lægst settu í samfélaginu til góðs. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, telur þetta aftur á móti ekki góða hugmynd, hún myndi meðal annars hafa neikvæða hvata á vilja fólks til að vinna.
Halldóra benti á í ræðu sinni að persónuafsláttur frá tekjuskatti hefði nú verið við lýði í rúmlega 30 ár. Hann hefði reynst mjög gott tæki til að auka ráðstöfunartekjur þeirra sem minnstar tekjur hafa og aukið tækifæri lágtekjufólks.
„Aftur á móti hafa þeir sem engar tekjur hafa ekki notið góðs af persónuafslætti, enda engar tekjur til að veita afslátt af. Þrátt fyrir að hljóma misvísandi, þá er það engu að síður hægt. Slíkt má gera með því að greiða út til einstaklinga þá fjárhæð persónuafsláttar sem viðkomandi nýtir sér ekki í hverjum mánuði. Slík útgreiðsla á ónýttum persónuafslætti – öðru nafni neikvæður tekjuskattur – myndi hér á Íslandi sérstaklega nýtast ungu fólki og námsmönnum, sem margir hverjir afla lítilla tekna en safna í stað þess skuldum í formi námslána,“ sagði hún.
Hætta að láta sig eingöngu dreyma og raungera hugmyndir
Halldóra benti jafnframt á að sífellt ykjust kröfur til barna og ungmenna á Íslandi. Þar sem áður hefði dugað að vera með stúdentspróf þyrfti nú að minnsta kosti eina háskólagráðu, helst tvær. Slíkt tæki auðvitað mörg ár, ár þar sem viðkomandi einstaklingur væri tekjulaus, eða í besta falli mjög tekjulítill. Samhliða háskólanámi hlæðust upp námslán, og þrátt fyrir að fullvíst væri að þau þurfi að borga til baka væri alls ekki á vísan að róa með örugga atvinnu að loknu námi. Allt þetta ylli streitu og vanlíðan.
„Ef námsmönnum væri greiddur út ónýttur persónuafsláttur á meðan námi stæði gætu einhverjir þeirra mögulega tekið lægri námslán eða hreinlega bara látið enda ná saman. Einhverjir munu hins vegar nýta tækifærið sem svona öryggisnet veitir til að hætta að láta sig eingöngu dreyma og raungera hugmyndir sínar. Einnig mun þessi hógværa upphæð geta haft áhrif á hvenær fólk ákveður að stofna fjölskyldu og eignast börn að loknu námi,“ sagði hún.
Allt væru þetta atriði sem talin eru þjóðfélagi til tekna í nýjum velsældarmarkmiðum ríkisstjórnarinnar.
Gæti breytt stöðu þeirra verst stöddu
„En útgreiddur ónýttur persónuafsláttur nýtist ekki bara námsmönnum. Atvinnulíf um allan heim er að þróast í þá átt að fólk ræður sig til einstakra verkefna frekar en í fasta launaða vinnu. Það veitir atvinnurekendum aukinn sveigjanleika, en er ekki beint fallið til að auka öryggi starfsfólksins sem um ræðir. Það gerir það hins vegar að verkum að upp munu koma tilvik þar sem fólk missir út tekjur í stuttan tíma og gæti þessi aðgerð hjálpað til við að brúa þau tímabil,“ sagði hún.
Krafan um símenntun væri einnig komin til að vera og myndi eingöngu aukast á næstu misserum. Með þessari aðgerð yrði fólki gert auðveldara um vik til að sækja sér hana og efla sig í starfi.
Útgreiðsla ónýtts persónuafsláttar nýttist þó ekki eingöngu innan menntakerfisins eða á atvinnumarkaði. Hluti öryrkja og þeirra sem búa við fjárhagsaðstoð sveitarfélaga hefði svo lágar tekjur að þær næðu ekki upp í þá upphæð sem fullnýtir persónuafsláttinn. Neikvæður tekjuskattur myndi geta breytt stöðu þeirra verst stöddu og það eitt og sér gerði þessa hugmynd þess virði að láta á hana reyna.
Myndi margfalt borga sig
„Þekkt er að það kostar peninga að búa til peninga. Þrátt fyrir að eiga uppruna sinn í rekstri fyrirtækja nær orðatiltækið alveg jafnvel yfir hið opinbera. Það sem átt er við er að innviðir sem styrkja einstaklinga búa til betri einstaklinga sem munu skila meira til samfélagsins til baka. Streita, áhyggjur af skuldum og sérstaklega glötuð tækifæri frumkvöðla sem aldrei náðu sér á flug kosta þjóðfélagið gríðarlega mikið,“ sagði Halldóra.
Hún sagði enn fremur að þessi hugmynd væri ekki ókeypis í framkvæmd, hún kostaði um 10 milljarða en greiningar sýndu að ávinningurinn yrði mun meiri. Eina leiðin til að komast að því fyrir víst væri að láta af henni verða og mæla árangurinn. Ef niðurstaðan yrði sparnaður í heilbrigðiskerfinu, aukin aðsókn í nám og aukin nýsköpun, með tilheyrandi stofnun nýrra fyrirtækja, eins og rannsóknir bentu til, þá myndi aðgerðin borga sig margfalt til baka.
Leggur til orðið „persónuarður“
Þingmaðurinn auglýsti jafnframt eftir nýju heiti yfir þessa hugmynd sem þekkist nú sem neikvæður tekjuskattur. „Eitthvað aðeins jákvæðara og fallegra. Eftir að hafa lagt höfuðið í bleyti datt mér í hug að ónýttur útgreiddur persónuafsláttur – annað ónothæft orðskrípi – væri líklega best lýst með orðinu persónuarður,“ sagði hún.
Þótt orðið persónuarður væri nýtt þá væri hugmyndin hvorki ný né frumleg. Hún væri ekki einu sinni dýr. „En engu að síður hefur aldrei verið á það reynt af alvöru hvort lágmarksframfærsla muni auka velsæld fólksins í landinu. Í staðinn hefur verið reynt að plástra upp í einstaka göt gloppótts kerfis með aðgerðum sem annað hvort ná ekki utan um vandamálið eða kosta meira í umsýslu en vandamálið sjálft. Með breyttum atvinnuháttum, snarlækkandi tryggð á vinnumarkaði og aukinni kröfu um menntun og þekkingu gengur ekki að hið opinbera ríghaldi í gamlar kennisetningar og reyni að troða samfélaginu í þann ramma. Því það er ekki nóg að tala bara fallega um framtíðina, við þurfum núna að fara að búa hana til! Og til þess þurfum við fjárfesta í fólki, því fólkið er framtíðin,“ sagði hún að lokum.
Fagnaði umræðunni
Fjármála- og efnahagsráðherra svaraði Halldóru og sagðist fagna því að taka umræðuna í þinginu. Þetta væri vissulega ekki algjörlega ný hugmynd en þau hefðu þó aldrei tekið hana til djúprar athugunar. „En hér virðist útgangspunkturinn vera sá að útgreiðsla ónýtts persónuafsláttar væri ekki sérlega dýr aðgerð en að ávinningurinn væri mikill, sérstaklega fyrir ungt fólk og námsmenn.“ Hann benti á að úttekt frá árinu 2019 hefði ónýttur persónuafsláttur við álagningu ársins verið 11,2 milljarðar sem gæfi þá mynd af áhrifum þessara hugmynda en hann taldi að þetta væru verulegar fjárhæðir. „Og því til viðbótar verður að teljast afar líklegt að þessi breyting myndi hafa tiltekna hvata í för með sér sem gætu orðið til þess að auka enn frekar á fjárhagslegu áhrifin.“
Hann sagði að einnig hefði komið fram í greiningu ráðuneytisins að af þessum 11,2 milljörðum þá væru það ríflega þrír milljarðar sem ekki nýttust hjá 16 og 17 ára einstaklingum. Alls um fimm milljarðar sem væru hjá þeim sem eru undir tvítugu. „Og vegna þess að hér er námið nefnt til sögunnar vill ég láta þess getið hér að það liggur fyrir þinginu frumvarp til breytinga á lánasjóði íslenskra námsmanna sem felur í sér töluvert miklar breytingar á stuðningi stjórnvalda við námsmenn sem munu hafa veruleg áhrif á kjör námsmanna til hins betra.“
Myndi hafa neikvæða hvata á vilja fólks til vinnu
Bjarni sagði að ríkisstjórnin væri í miðju verki að vinna úr ýmsum hugmyndum sem að öðru leyti væri beint sérstaklega að ungu fólki. Þar mætti nefna sérstakan húsnæðisstuðning, svo sem stuðning við fyrstu kaup, auk þess sem áhrif skattkerfisbreytinga sem tóku gildi um áramótin, gagnaðist væntanlega ungu fólki sem jafnframt væri fremur tekjulágt – enda væru þær aðgerðir sniðnar að þeim hópi og hefði meðal annars verið byggt á úttekt sérstaks sérfræðihóps sem hefði ekki talið gagnlegt að fara í útgreiðslu á ónýttum persónuafslætti, sérstaklega vegna þess að það myndi leiða til svo hárra jaðarskatta. Þessir jaðarskattar yrðu þá sérlega háir á fólk með lágar tekjur.
„Þetta myndi með öðrum orðum hafa mjög neikvæða hvata á vilja fólks til vinnu,“ sagði hann. Þá taldi ráðherrann að þessar hugmyndir Pírata væru í ætt við hugmyndir um borgaralaun og sagði hann að þeir sem fylgst hafa fylgst með þeim málum í tilraun annars staðar hefði væntanlega tekið eftir því að það hefði komið fram ýmsir vankantar á slíkum hugmyndum.
Betra að lækka skatta
„Ef við viljum gera ráðstafanir hér upp á tíu, ellefu eða tólf milljarða þá í mínum huga ættum við einfaldlega að lækka skattana. Ég skil ekki hvers vegna – þegar við höfum búið til kerfi sem segir við þá sem geta farið að vinna – að þau geti gert það skattlaust vegna persónuafsláttarins að við ættum að ganga lengra heldur en það.“
Bjarni sagði að persónuafsláttarkerfið ætti einmitt að nýtast námsmönnum og ungu fólki vel. „Það dregur svo verulega úr árlegri skattbyrði þessa hóps vegna þess að hann getur nýtt sumarmánuðina til vinnu og persónuafslátturinn tryggir að heildarskattbyrði ársins verður mun minni. Og ef það er eitthvað sem við þurfum á næstu árum þá er það að auka framleiðnina en ekki með því að senda fólki tékka heim og hvetja það til að fara ekki að vinna. Akkúrat öfugt við það sem við þurfum að gera á næstu árum.“
Að lokum sagðist hann ekki vera hrifinn af hugmyndinni og að hægt væri að ráðstafa slíkum fjármunum með skynsamlegri hætti. „Og ég tel að við ættum almennt að byggja upp kerfin okkar þannig að það sé hvati til að fara að vinna og skapa verðmæti.“