„Í dag eru liðnir tíu langir mánuðir frá því kjarasamningarnir okkar runnu út. Í þessa tíu mánuði hafa ríkið og sveitarfélögin reynt að þreyta okkur og fá okkur til að falla frá ykkar kröfum um bætt kjör. Í tíu mánuði höfum við haldið áfram baráttunni og við erum hvergi nærri hætt.“
Á þessu orðum hóf Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, ávarp sitt á baráttufundi í Háskólabíói sem hófst klukkan 17 í dag. Um sameiginlegan fund BSRB, Bandalags háskólamanna (BHM) og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) er að ræða. Á sama tíma standa yfir baráttufundir félagsmanna víða um land. Félögin krefjast þess nú að ríki og sveitarfélög gangi tafarlaust til samninga við starfsfólk sitt.
„Þolinmæðin sem við áttum nóg af í byrjun apríl í fyrra er löngu þrotin,“ sagði Sonja Ýr. „Mér er misboðið fyrir hönd félagsmanna yfir þessum seinagangi. Biðin eftir kjarabótum er orðin allt of löng á meðan öll útgjöld eru að hækka. Við ætlum ekki að láta bjóða okkur upp á það, að viðsemjendur okkar dragi lappirnar í kjaraviðræðunum, dag eftir dag, viku eftir viku og mánuð eftir mánuð.“
Vinnuvikan verði stytt án kjaraskerðinga
Hún sagði að í kjaraviðræðum nú væri markmið BSRB að ná fram stórum kerfisbreytingum. „Við krefjumst þess að vinnuvikan verði stytt án kjaraskerðingar og að laun verði jöfnuð milli opinbera og almenna vinnumarkaðarins.“ Sagði hún félagið koma vel undirbúið til leiks, með skýrar kröfur og leiðir. Við samningaborðið sé því hins vegar mætt með fálæti. Hún segir viðsemjendur hafa verið illa undirbúna og að skort hafi á samningsviljann.
„Ætlum við að sætta okkur við þessa stöðu? Eða eigum við að grípa til aðgerða til að snúa stöðunni okkur í hag, og knýja viðsemjendur til að sýna okkur þá lágmarksvirðingu, að semja við sitt starfsfólk um kaup og kjör?“ spurði Sonja Ýr viðstadda í Háskólabíói.
Næsta skrefið að boða til verkfalla
Sagði hún opinbera starfsmenn í gegnum tíðina hafa þurft að berjast af hörku fyrir öllum helstu kjarabótum sem þeir hafa fengið. „Ef við þurfum að leggja í enn einn slaginn til þess að ná markmiðum okkar þá gerum við það.“
Samstaðan skipti sköpum og enginn skortur væri á henni.
„Nú gefum við sveitastjórnum og ríkisstjórninni gula spjaldið! Ef ekki verður gengið til kjarasamninga við opinbera starfsmenn strax er næsta skrefið að boða til verkfalla sem geta lamað almannaþjónustuna. Það er ekki staða sem við óskum okkur, en ef það reynir á okkar sterkasta vopn, þá munum við beita því.“
Tíu mánuðir væru of langur tími og að ekki yrði beðið lengur heldur krafist kjarasamninga strax.