Kvika banki ætlar að hagnast um 2,3 til 2,7 milljarða króna á árinu 2020. Afkomuáætlun Kviku banka fyrir árið 2019 gerir ráð fyrir að hagnaður á því ári hafi verið á bilinu 2,5 til 2,8 milljarðar króna fyrir skatta. Því má ætla að rekstur bankans verði á svipuðu róli í ár og hann var í fyrra. Vert er að taka fram að í upphafi árs 2019 var afkomuspá bankans tæpir tveir milljarðar króna fyrir skatta en var breytt þrisvar á árinu, samanlagt til umtalsverðrar hækkunar.
Samkvæmt samþykktri rekstraráætlun stjórnar bankans fyrir árið mun arðsemi eigin fjár hans verða á bilinu 15 til 18 prósent fyrir skatta, sem er umfram langtímamarkmið Kviku banka, en það er 15 prósent. Þetta er minni arðsemi en var á eigin fé Kviku banka á fyrst níu mánuðum síðasta árs þegar hún var 20,3 prósent.
Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallar Íslands.
Eignastýring ráðandi tekjustraumur
Áætlunin gerir ráð fyrir því að hreinar þóknanatekjur verði 65 prósent af rekstrartekjum bankans í ár. Rúmur helmingur þeirra tekna eiga að falla til vegna eignastýringar, en Kvika banki hefur verið duglegur að kaupa upp eignastýringarfyrirtæki undanfarin misseri, meðal annars Virðingu, Júpíter og GAMMA. Heildareignir í stýringu hjá Kviku í lok september 2019 voru 417 milljarðar króna.
Hreinar vaxtatekjur bankans eru áætlaðar 27 prósent og aðrar óskilgreindar tekjur eiga að nema átta prósent af rekstrartekjum.
Samkvæmt áætlun stjórnar Kviku banka á bankinn eiga 101 milljarð króna í lok árs. Það eru minni eignir en hann átti í lok þriðja ársfjórðungs síðasta árs, þegar heildareignir Kviku banka voru 112,6 milljarðar króna.
Stærstu eigendur Kviku eru Lífeyrissjóður verzlunarmanna með 8,77 prósent, Arion banki heldur á 6,93 prósent hlut og K2B fjárfestingar, félag í eigu Svanhildar Nönnu Vigfúsdóttur, á 6,69 prósent hlut.