Verðbólga í janúar mælist 1,7 prósent og lækkar úr 2,0 prósent í desember. Þetta er minnsta verðbólga sem mælst hefur frá því í september 2017.
Helstu áhrifavaldar þess að verðbólgan lækkaði eru nokkrir. Sá helsti er að húsnæðiskostnaður lækkaði um 0,6 prósent á milli mánaða og munar þar mestu um að í annað sinn á tveimur mánuðum lækkaði markaðsverð íbúðarhúsnæðis á milli mánaða. Þetta kemur fram í tölum sem Hagstofa Íslands birti í morgun.
Ef húsnæðisliðurinn væri ekki inni í vísitölu neysluverðs, sem mælir verðbólgu, væri verðbólgan mjög svipuð og með honum, eða 1,6 prósent.
Verðbólgan fór undir 2,5 prósent markmið Seðlabanka Íslands í desember síðastliðnum en hún náði því síðast í júní 2018. Frá þeim tíma reis hún hæst í 3,7 prósent í desember 2018.
Flestar spár gerðu ráð fyrir að verðbólgan myndi fara niður í átt að verðbólgumarkmiði í lok síðasta árs en það voru ekki margir sem gerðu ráð fyrir svona skörpum samdrætti hennar.
Búist er við því að verðbólgan haldist undir verðbólgumarkmiði út þetta ár.
Hefur áhrif á lánakjör fjölda Íslendinga
Hin skarpa minnkun verðbólgu hefur jákvæð áhrif á alla þá sem eru með verðtryggð íbúðalán, en þorri íslenskra lántaka er með slík lán.
Kjarninn hefur þó fjallað um það undanfarið að óverðtryggð lán hafi verið að sækja mjög í sig veðrið það sem af er þessu ári, meðal annars vegna þess að sumir lífeyrissjóðir landsins hafa breytt lánaskilmálum sínum þannig að þeir vísa fleirum í átt að slíku lánaformi.
Á sama tíma drógust verðtryggð lán sem bankarnir eiga saman um 27,3 milljarða króna. Ástæðan fyrir því er meðal annars að finna í að Íbúðalánasjóður ákvað að kaupa 50 milljarða króna safn af verðtryggðum lánum af Arion banka og átti sú sala sér stað í september 2019. Ef lánasafnið hefði ekki verið selt til Íbúðalánasjóðs, sem hefur dregið sig mjög saman á útlánamarkaði á undanförnum árum og lánar einungis verðtryggt, hefði verið aukning á verðtryggðum lánum íslensku bankanna.
Hlutfallið á útlánum banka til húsnæðiskaupa fór því úr að vera 69 prósent verðtryggð lán og 31 prósent óverðtryggð í árslok 2018 í að vera 62 prósent verðtryggð og 38 prósent óverðtryggð.
Aukning í óvertryggðu hjá lífeyrissjóðum
Lífeyrissjóðir landsins eru hinn stóri aðilinn á útlánamarkaði. Þeir bjóða upp á mun betri vaxtakjör en bankarnir en á móti eru mun færri sem uppfylla lántökuskilyrði hjá þeim. Á mannamáli þýðir það að lífeyrissjóðirnir lána lægra lánshlutfall, lægri hámarksupphæð og setja þrengri skorður gagnvart hverjum þeir lána. Lægstu vextirnir sem eru í boði hjá lífeyrissjóðum eru hjá Birtu, sem lánar verðtryggt á 1,69 prósent breytilegum vöxtum, en þar er hámarkslánið reyndar 65 prósent af kaupverði. Til samanburðar býður Landsbankinn best í þeim lánaflokki af öllum bönkunum, 3,2 prósent vexti upp að 70 prósent af kaupverði. Vextir þess banka sem býður best eru því næstum tvisvar sinnum hærri en vextir þess lífeyrissjóðs sem er með lægstu vextina.
Þeir juku útlán sín verulega á síðasta ári. Alls lánuðu lífeyrissjóðirnir 92,4 milljarða króna í sjóðsfélagalán á fyrstu ellefu mánuðum síðasta árs. Mest hafa þeir lánað 99,2 milljarða króna á einu ári, en það gerðist árið 2017. Allt bendir til þess að 100 milljarða króna útlánamúrinn hafi verið rofinn í fyrra og að það ár verði þar með metár.
Í lok nóvember 2019 höfði þeir lánað 409 milljarða króna í verðtryggð lán til sjóðsfélaga en um 110 milljarða króna í óverðtryggðu. Hlutfallið hjá þeim var því þannig að 21 prósent útlána lífeyrissjóðanna til sjóðsfélaga voru óverðtryggð en 79 prósent verðtryggð.
Alls jukust óverðtryggð lán lífeyrissjóða um 37,5 prósent á fyrstu ellefu mánuðum ársins í fyrra en verðtryggðu lánin um 15,8 prósent. Þótt verðtryggðu lánin séu enn mikill meirihluti útlánanna þá er ljóst að þau óverðtryggðu sóttu í sig veðrið.