Viðmiðunarverð á bensíni hefur lækkað um tæp átta prósent frá miðjum júlímánuði í fyrra, og fram í janúar 2020. Viðmiðunarverðið var 235,2 krónur á lítra í fyrrasumar en um miðjan janúar var það komið niður í 217,1 krónu. Á milli desember og janúar lækkaði það um 2,7 krónur á lítra.
Þetta kemur fram í nýlega birtri Bensínvakt Kjarnans sem unnin er í samvinnu við Bensínverð.is.
Bensínverð var á mjög svipuðum slóðum um miðjan janúar og það var á sama tíma fyrir ári, þegar bensínlítrinn kostaði að jafnaði 215,5 krónur. Gengi krónu gagnvart Bandaríkjadalhækkaði lítillega á árinu 2019, en það gengi hefur umtalsverð áhrif á þróun eldsneytisverðs hérlendis þar sem að innkaup á eldsneyti fara fram í dölum.
Heimsmarkaðsverð á olíu hefur hækkað um tæp 14 prósent frá því í byrjun janúar 2019. Verðið hefur þó legið frekar niður á við undanfarið.
Hlutur ríkisins í hverjum lítra 56 prósent
Íslenska ríkið tekur til sín stóran hluta af hverjum seldum lítra af bensíni. Þannig fór 20,31 prósent af verði hans um miðjan janúar í sérstakt bensíngjald, 12,60 prósent í almennt bensíngjald og 3,80 prósent í kolefnisgjald. Þá er ótalið að 19,35 prósent söluverðs er virðisaukaskattur.
Bensínvakt Kjarnans reiknar einnig út líklegt innkaupsverð á bensíni út frá verði á lítra til afhendingar í New York í upphafi hvers mánaðar frá bandarísku orkustofnuninni EIA og miðgengi dollars gagnvart íslenskri krónu í yfirstandandi mánuði frá Seðlabanka Íslands.
Í þessum útreikningum kann að skeika nokkru á hverjum tímapunkti vegna lagerstöðu, skammtímasveiflna á markaði o.s.frv. Nákvæmara væri að miða við verð á bensíni til afhendingar í Rotterdam, en verðupplýsingar þaðan liggja ekki fyrir á opnum gagnaveitum. Mismunur á verði í New York og Rotterdam er þó yfirleitt mjög lítill.
Líklegt innkaupsverð í síðustu birtu Bensínvakt var 57 krónur á lítra.
Hlutfall olíufélaga fer lækkandi
Bensínvaktin reiknar loks út hlut olíufélags í hverjum seldum lítra sem afgangsstærð þegar búið er að greina aðra kostnaðarliði, líkt og farið er yfir hér að ofan. Hlutur olíufélaga, þ.e. álagningin sem fer í þeirra vasa, er nú að minnsta kosti 38,38 krónur á hvern seldan bensínlítra. Í maí 2017 fengu olíufélögin, til samanburðar, 41,74 krónur í sinn hlut af hverjum seldum lítra.
Olíufélögin taka nú að minnsta kosti 17,68 prósent af hverjum seldum olíulítra. Það hlutfall hefur ekki verið lægra frá því í apríl 2019 þegar það nam 16,3 prósentum. Það náði lægsta punkti sínum í september 2017 þegar olíufélögin fengu 11,38 prósent í sinn hlut.