Alþingi sendi í lok síðustu viku út alls 23 umsagnarbeiðnir vegna þingsályktunartillögu um rannsókn á fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands. Tillagan var lögð fram af öllum þingmönnum Pírata, Samfylkingar og Viðreisnar í nóvember síðastliðnum og samkvæmt henni á að verða skipuð þriggja manna rannsóknarnefnd af Alþingi til að rannsaka hina fjárfestingarleiðina.
Á meðal þeirra sem boðið hefur verið að skila inn umsögn eru Seðlabanki Íslands, Bankasýsla ríkisins, Persónuvernd, Alþýðusamband Íslands, Landssamtök lífeyrissjóða, Ríkislögreglustjóri, Ríkissaksóknari, Skattrannsóknarstjóri og Samtök fjármálafyrirtækja.
Frestur til að skila inn umsögnum er til 20. febrúar næstkomandi.
Á að ljúka störfum fyrir 1. október
Í þingsályktunartillögunni er farið fram á að rannsóknarnefndin geri grein fyrir því hvaðan fjármagnið sem flutt var til landsins með fjárfestingarleiðinni kom, hvaða einstaklingar eða félög voru skráð fyrir fjármagninu sem flutt var til landsins, hvernig fénu sem flutt var inn til landsins var varið og hver áhrif þess voru á íslenskt efnahagslíf.
Nefndin, verði tillagan samþykkt, á að skila niðurstöðum sínum í skýrsluformi svo fljótt sem verða má og eigi síðar en 1. október 2020. Fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögunnar var Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata. Alls eru 17 þingmenn skrifaðir fyrir henni.
Ekki hægt að útiloka svik
Í greinargerð með tillögunni sagði að fjárfestingarleiðin hafi verið gagnrýnd af ýmsum ástæðum, en telja verði sérstaklega mikilvægt í ljósi umræðu um aflandseignir og skattaundanskot á síðustu misserum að leitast verði við að rannsaka og fjalla um hvort fjárfestingarleiðin hafi stuðlað að því að fjármagn vegna skattaundanskota, sem geymt var í skjóli á aflandseyjum, hafi verið fært til landsins í gegnum fjárfestingarleiðina með afslætti.
Í svari fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Björns Levís Gunnarssonar, þingmanns Pírata, á Alþingi hafi til að mynda komið fram að ekki væri hægt að útiloka að í einhverjum tilvikum hafi ekki verið farið í einu og öllu að ákvæðum fjárfestingarleiðarinnar.
Þar er enn fremur vísað í skýrslu sem Seðlabanki Íslands lét sjálfur vinna um framkvæmd fjárfestingarleiðarinnar og annarra gjaldeyrisútboða á árunum 2011 og 2015, og birt var í ágúst síðastliðnum og sagt að í þeirri skýrslu kunni einhver svör að liggja við þeim spurningum sem skipun rannsóknarnefndar á að svara. „Í ljósi þeirra gríðarlegu miklu fjármuna og áhrifa sem fjárfestingaleiðin hefur haft á íslenskt efnahagslíf er að mati flutningsmanna réttast að óháður aðili fjalli um framkvæmd útboðanna frekar en sá aðili sem rannsóknin mun snúa að.“