Atvinnuleysi á evrusvæðinu, sem samanstendur af 19 þjóðum, mælist nú 7,4 prósent, en sé litið til meðaltalsstöðunnar meðal 27 ríkja Evrópusambandsins, þá er staðan þar 6,2 prósent.
Hagvaxtarhorfur hafa versnað á svæðinu, og jafnvel talið að hagvöxtur verði lítill sem enginn á þessu ári, að því er segir í umfjöllun breska ríkisútvarpsins BBC.
Hagvöxtur mældist 0,1 prósent á síðustu þremur mánuðum síðasta árs, á evrusvæðinu. Tvö af stærstu evruhagkerfunum, Ítalía og Frakkland, hafa gengið í gegnum samdráttarskeið að undanförnu. Franska hagkerfið minnkaði um 0,1 prósent á síðustu þremur mánuðum ársins og Ítalía um 0,3 prósent.
Spánn hefur rétt nokkuð úr kútnum, undanfarin misseri, eftir erfiða tíma um árabil eftir erfiðleika á fjármálamörkuðum á árunum 2007 til og með 2009. Hagvöxtur á síðustu þremur mánuðum ársins í fyrra mældist 1,8 prósent á Spáni og gera spár ráð fyrir að hann verði um tvö prósent á þessu ári.
Til samanburðar gera spár um hagvöxt ráð fyrir að hagvöxtur verði á bilinu 2 til 3 prósent hér á landi, á næstu árum. Í fyrra var hins vegar hægagangur, miðað við árin á undan, og hafa spár gert ráð fyrir að hagvöxtur á árinu - þegar tölur liggja fyrir - verði á bilinu 0 til 0,5 prósent.