Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefur ákveðið að fresta brottvísun barna í þeim málum þar sem málsmeðferð hefur farið yfir 16 mánuði. Það þýðir að óbreyttu að hætt verður við brottvísun Muhammeds Zohair Faisal sem vísa átti úr landi á morgun, 3. febrúar, en hann hefur dvalið hérlendis í meira en tvö ár. Alls hafa tæplega 18 þúsund manns skrifað undir áskorun til stjórnvalda um að fresta brottvísun Muhammeds og fjölskyldu hans um helgina.
Dómsmálaráðherra ætlar einnig að kynna í ríkisstjórn áform um að stytta hámarkstíma málsmeðferðar úr átján mánuðum í sextán í hælismálum þar sem börn eiga í hlut.
Í frétt sem birtist á vef dómsmálaráðuneytisins í dag segir að að samkvæmt lögum um útlendinga sé heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða að tilteknum skilyrðum uppfylltum, hafi hann sótt um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða.
„Nýlega hefur athygli dómsmálaráðherra verið vakin á því að í einstökum málum geti tíminn orðið óhæfilega langur. Dómsmálaráðherra vill leggja áherslu á að málsmeðferðartími í verndarkerfinu sé styttur eins og frekast er kostur. Töluverður árangur náðist í fyrra við að hraða meðferð mála hjá Útlendingastofnun. Mikilvægt er að halda áfram á þeirri braut. Sérstaklega þarf að leggja áherslu á að forgangsraða í þágu barna og marka slíkri málsmeðferð eins stuttan tíma og kostur er.“
Þingmannanefnd um málefni útlendinga fundaði fyrir helgi um stöðu barna og fólks í viðkvæmri stöðu. Áslaug Arna hefur falið nefndinni að fylgja þeirri vinnu áfram eftir.
Í tilkynningunni á vef ráðuneytisins segir að Ísland taki nú á móti töluvert miklum fjölda umsókna um vernd. Ljóst er að til að ofangreind markmið um málshraða náist þarf bæði að tryggja kerfinu næga fjármuni til að valda verkefninu og jafnframt að tryggja að efnisreglur hér á landi séu til þess fallnar að greina hratt á milli þeirra sem þarfnast verndar og annarra.
Þessar breytingar verða útfærðar nánar í reglugerð. Þegar hefur verið ákveðið að fresta brottvísun barna í þeim málum þar sem málsmeðferð hefur farið yfir sextán mánuði.“
Tæplega 18 þúsund manns skrifað undir
Á síðunni þar sem undirskriftun er safnað til að skora á ríkisstjórn Íslands að bregðast við í máli Muhammeds kemur fram að vísa ætti drengnum og fjölskyldu hans til Pakistan á morgun. Þar biði þeirra ekkert nema óvissa en þangað hefur drengurinn aldrei komið og foreldrarnir ekki í tíu ár. Þau hafi ástæðu til að óttast hvað tekur við þeim í Pakistan og staða barnsins yrði miklu verri en hér á landi. „Muhammed er einstaklega heillandi strákur, brosmildur, hlýr og lífsglaður. Hér hefur Muhammed búið í meira en tvö ár og tengst samfélaginu sterkum böndum. Hann er búinn að eignast marga vini, leikskólafélaga á Dvergasteini og skólafélaga í Vesturbæjarskóla og Skýjaborgum. Hann talar lýtalausa íslensku, er frábær námsmaður svo eftir er tekið og hefur tekist að bræða hjörtu allra þeirra sem hafa kynnst honum.“
Alls hafa yfir 17.700 manns skrifað undir áskorunina þegar þetta er skrifað, en hún var sett af stað á föstudag.
Í textanum sem fylgir undirskriftasöfnuninni, sem sett var af stað af blaðamanninum Val Grettissyni, segir að barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna kveði á um að það sem barni sé fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang í ákvörðunum stjórnvalda. Það feli meðal annars í sér að tryggja líf barns, þroska og öryggi, óháð lagalegri stöðu eða athafna foreldra hans eða hennar. „Þegar málsmeðferð ungs barns hefur staðið yfir í rúmlega tvö ár bera stjórnvöld ríkar skyldur gagnvart barninu, sem dvalið hefur hér stóran hluta ævi sinnar og aldrei séð heimaland foreldranna. Íslensk stjórnvöld hafa gefið það út að Ísland skuli verða besta land í heimi fyrir börn. Sýnum það í verki.“