Bráðabirgðamat liggur nú fyrir frá mælingum á stærð loðnustofnsins í janúar á þessu ári. Stærð hrygningarstofnsins samkvæmt þessum mælingum var um 64 þúsund tonn. Er það langt undir þeim mörkum í gildandi aflareglu sem þarf að ná svo Hafrannsóknastofnun geti ráðlagt veiðar.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá stofnuninni.
Matið byggir á mælingum þriggja skipa, RS Árna Friðrikssonar, ásamt loðnuskipunum Hákoni EA-148 og Polar Amaroq. Í tilkynningunni segir enn fremur að þrátt fyrir erfiðar veðuraðstæður hafi náðst með samstilltu átaki þriggja mæliskipa og tveggja leitarskipa, heildaryfirferð frá Hvalbakshalla fyrir suðaustan land og þaðan norður um og suður fyrir Víkurál út af Vestfjörðum. Hafís hafi hindrað mjög yfirferð í Grænlandssundi.
Þann 1. febrúar síðastliðinn var byrjað á að ná mælingu á stofninum öðru sinni, samkvæmt Hafrannsóknarstofnun. Polar Amaroq byrjaði þá yfirferð suðaustur af landinu og mun Aðalsteinn Jónsson SU-011 koma inn í þær mælingar fyrir austan þriðjudaginn 4. febrúar. RS Árni Friðriksson mun halda til mælinga 3. febrúar vestur fyrir land og mæla til móts við hin skipin.
Hafrannsóknarstofnun gerir ráð fyrir að þessar mælingar geti staðið yfir fram í að minnsta kosti miðjan mánuðinn.