Drífa Snædal, forseti ASÍ, segir í stöðuuppfærslu á Facebook að hún styðji skilyrðislaust grasrótarbaráttu launafólks fyrir bættum kjörum en hún hefur fengið fyrirspurnir um það hvort hún styðji verkfall Eflingar sem nú stendur yfir. „Það er kjarni verkalýðsbaráttu að valdið sé nálægt félagsmönnum, fólk hafi skilyrðislausan rétt til að skipuleggja sig í verkalýðsfélög og beita verkföllum í kjaradeilu,“ skrifar hún.
Rúmlega 1.800 félagsmenn Eflingar sem starfa hjá borginni fóru í verkfall á hádeginu á dag sem mun standa til miðnættis. Næsti fundur í kjaradeilunni er boðaður klukkan þrjú á morgun. Verkfallið mun hafa mest áhrif á leikskóla- og velferðarþjónustu á vegum Reykjavíkurborgar auk sorphirðu, vetrarþjónustu og umhirðu borgarlandsins.
Starfsfólk Eflingar telur um 1.850 af um 9.000 starfsmönnum borgarinnar. Eflingarfólk starfar í fjölbreyttum störfum á 129 starfsstöðum hjá Reykjavíkurborg. Um 1.000 starfa á skóla- og frístundasviði, þar af mikill meirihluti í leikskólunum. Þá starfa um 700 úr Eflingu við velferðarþjónustu borgarinnar.
Félagsmenn Eflingar sýnt mikið langlundargeð
Drífa bendir á að umboð Eflingar frá félagsmönnum sé sterkt. „Við skulum líka hafa það í huga að félagsmenn hafa verið kjarasamnings lausir í 11 mánuði og því augljóst að félagar hafa sýnt mikið langlundargeð. Verkföll eru líka ekki bara spurning um fleiri krónur í umslagið heldur krafa um virðingu og að jafna völdin,“ skrifar hún.
Fólk á lægstu laununum í Reykjavík rísi nú upp og krefjist virðingar, að á þau sé hlustað og gengið sé til raunverulegra samningaviðræðna. „Ábyrgðin er hjá Reykjavíkurborg!“ skrifar hún að lokum.
Ég hef fengið fyrirspurnir um hvort ég styðji verkfall Eflingar. Fyrir mér er spurningin fáránleg. Ég styð...
Posted by Drífa Snædal on Tuesday, February 4, 2020
BSRB styður verkfallsaðgerðir Eflingar
BSRB hefur lýst yfir stuðningi við yfirstandandi verkfallsaðgerðir Eflingar vegna kjarasamningsviðræðna við Reykjavíkurborg.
„Sjálfstæður samningsréttur er grundvallarréttur launafólks og verkfallsrétturinn öflugasta vopnið í kjarabaráttunni. Félagsmenn í aðildarfélögum BSRB eru hvattir til að virða verkfallsrétt Eflingar og ganga ekki í störf félagsmanna sem eru í verkfalli,“ segir í yfirlýsingunni.