Ísland og Noregur eru einu lönd Norðurlanda sem juku losun gróðurhúsalofttegunda frá 1990 til 2017 og reyndar trónir Ísland á toppnum í Evrópu þegar skoðuð er losun á hvern íbúa.
Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Norrænu ráðherranefndarinnar – State of the Nordic region, sem unnin er af Nordregio og birtist í dag.
Í henni segir að helstu skýringarnar á þróuninni á Íslandi og í Noregi séu áhrif orkufreks iðnaðar eins og álvera og olíuiðnaðar annars vegar og samgangna hins vegar.
Ísland í forystu með hlutfall endurnýjanlegrar orku
Samkvæmt skýrsluhöfundum jókst losun á hvern íbúa á Íslandi vegna samgangna um 57 prósent frá 2000 til 2017 sem meðal annars má rekja til aukins fjölda ferðamanna. Þá jókst orkunotkun vegna húshitunar um 22 prósent á sama tímabili. Þessi þróun í orkunotkun og losun gróðurhúsalofttegunda er á skjön við markmið um kolefnishlutleysi árið 2040, segir í skýrslunni.
Þá kemur fram að löndin hafi aftur á móti öll aukið hlutfall endurnýjanlegrar orku frá 2004 til 2017. Ísland sé í forystu með 72 prósent hlutfall endurnýjanlegrar orku, Noregur fylgi fast á eftir með 71 prósent en þar á eftir komi Svíþjóð með 54 prósent, Finnland með 41 prósent og Danmörk með 36 prósent.
Danir, sem reka lestina, juku hlutfall sitt þó mest á tímabilinu eða um 21 prósent þegar hlutfallið jókst um 13 prósent á Íslandi.