Skortur á því að raunverulegt eignarhald á íslenskum félögum lægi fyrir var eitt af þeim atriðum sem verð til þess að Financial Action Task Force (FATF) setti Ísland á gráan lista samtakanna í október. Ein forsenda þess að Ísland verði tekið af listanum er að skráningu raunverulegra eigenda verði komið í almennilegt horf á þessu ári.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu sem birt var í dag. Lög sem flýttu fresti sem félög hafa til þess að upplýsa um raunverulega eigendur sína til 1. mars næstkomandi voru samþykkt skömmu fyrir síðustu jól.
Flýtt vegna gráa listans
Þegar voru í gildi kvaðir um að upplýsa um raunverulega eigendur þegar nýtt félag er stofnað. Þær hafa verið í gildi frá 30. ágúst síðastliðnum og frá 1. desember hefur verið hægt að senda upplýsingar um hverjir þeir eru með rafrænum hætti til ríkisskattstjóra.
Ákveðið var að flýta þeim frest eftir að alþjóðlegur vinnuhópur um um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, Financial Action Task Force (FATF), setti Ísland á gráan lista fyrir að bregðast ekki nægilega vel við fjölmörgum athugasemdum samtakanna um brotalamir í vörnum gegn peningaþvætti á Íslandi.
Ein af athugasemdunum sem FATF gerði sneri að því að ekki þurfti að greina frá raunverulegum eigendum félaga á Íslandi.
Brotalamir í eftirliti banka
Á Íslandi hefur verið hægt að komast upp með það að fela eignarhald félaga, með ýmsum leiðum. Ein sú algeng leið var fólgin í því að láta félög, t.d. eignarhaldsfélög eða rekstrarfélög, vera í eigu erlendra félaga, sem voru síðan í eigu annarra erlendra félaga, sem voru í eigu sjóða í skattaskjólum þar sem engar eða litlar kröfur voru gerðar um skráningar og skil á gögnum. Þannig hefur verið verið hægt að fela hver raunverulegur eigandi félaga er.
Hér á landi hefur slíkt eftirlit aðallega verið á hendi banka. Í kjölfar þess að FATF gerði úttekt á Íslandi, og skilaði þeirri niðurstöðu vorið 2018 að eftirlit Íslands með peningaþvætti fengi falleinkunn, þá hóf Fjármálaeftirlitið að gera athuganir á íslenskum fjármálafyrirtækjum og getu þeirra til að verjast peningaþvætti.
Niðurstaðan, sem birt var helgina fyrir jólin 2019, var sú að Fjármálaeftirlitið gerði athugasemdir við mat allra íslensku viðskiptabankanna á upplýsingum um raunverulega eigendur fjármuna eða félaga sem eru, eða hafa verið, í viðskiptum við þá. Í niðurstöðum eftirlitsins á athugun eftirlitsins á peningaþvættisvörnum þeirra voru gerðar athugasemdir við þeir hafi ekki metið upplýsingar um raunverulega eigendur með sjálfstæðum hætti.
Dag- og stjórnvaldssektir
Samkvæmt nýju lögunum um raunverulega eigendur þá er hægt að refsa þeim sem ekki fylgja þeim. Ef eigendur félaga upplýsa ekki um hver hinn raunverulegi eigandi er, með framvísun þeirra gagna sem lögin kalla á, þá getur ríkisskattstjóri lagt á tvenns konar sektir á viðkomandi.
Hins vegar er um stjórnvaldssektir að ræða. Þær er hægt að leggja á þá sem veita ekki upplýsingar eða veita rangar/villandi upplýsingar. Þegar brot á lögunum er framið í starfsemi lögaðila, og í þágu hans, má leggja stjórnvaldssekt á lögaðilann án tillits til þess hvort sök verður sönnuð á fyrirsvarsmann eða starfsmann lögaðila. „Sektir sem lagðar eru á einstaklinga geta numið frá 100 þús. kr. til 5 millj. kr. Sektir sem lagðar eru á lögaðila geta numið frá 500 þús. kr. til 80 millj. kr. en geta þó verið hærri eða allt að 10 prósent af heildarveltu samkvæmt síðasta samþykkta ársreikningi lögaðilans eða 10 prósent af síðasta samþykkta samstæðureikningi ef lögaðili er hluti af samstæðu,“ segir í lögunum.