Hvorki utanríkisráðuneytið né atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið hafa fengið beiðnir um sérstaka aðstoð frá namibískum stjórnvöldum í kjölfar Samherjamálsins, og slík aðstoð hefur ekki verið boðin. Þetta kemur fram í svari þeirra við fyrirspurn Kjarnans um málið.
Þann 19. nóvember 2019 kynnti ríkisstjórn Íslands aðgerðaráætlun til að auka traust á íslensku atvinnulífi. Þetta var gert í kjölfar opinberana á málum tengdum Samherja og athæfi þess fyrirtækis í Namibíu, sem snerust meðal annars um meintar mútugreiðslur fyrir aðgengi að fiskveiðikvóta.
Aðgerðaráætlunin var birt á vef forsætisráðuneytisins. Einn liðurinn í henni bar nafnið „viðbrögð erlendis“ og undir honum kom fram að ríkisstjórn hefði undirbúið viðbrögð vegna hugsanlegs orðsporshnekkis.
Það varð mögulegt í gær þegar kyrrsetningu togarans, Heinaste, var aflétt samhliða því að Samherji greiddi sekt vegna brota skipstjórans.
Hafa ekki þurft að bregðast við mögulegum orðsporshnekki
Þar sem Samherji er stærsta sjávarútvegsfyrirtæki Íslands og meint brot varða atferli þess í alþjóðaviðskiptum, beindi Kjarninn fyrirspurnum til viðeigandi ráðuneyta um hvort að íslensk stjórnvöld hefðu gripið til einhverra aðgerða vegna þessa til að vernda orðspor Íslands, líkt og talað var um í aðgerðaráætluninni í nóvember.
Í svörum sem bárust í gær sagði að allt frá því að Samherjamálið kom upp hafi íslensk stjórnvöld, með aðstoð Íslandsstofu og almannatengslafyrirtækisins BCW, fylgst grannt með erlendri fjölmiðlaumfjöllun og umræðum á samfélagsmiðlum sem tengist því. „Umfjöllunin var töluverð fyrstu dagana og beindist þá fyrst og fremst að Namibíu og þætti þarlendra ráðamanna í málinu en svo dró jafnt og þétt úr henni. Hvorki utanríkisráðuneytið né sendiskrifstofur hafa fengið teljandi fyrirspurnir eða athugasemdir vegna málsins og Íslandsstofa ekki heldur. Í ljósi þessa er það mat stjórnvalda að grípa ekki að sinni til sérstakra ráðstafana til að sporna við mögulegum orðsporshnekki. Verði breyting á verður þetta mat endurskoðað enda voru viðbrögð undirbúin um leið og málið kom upp.“
Aðspurð hvort að íslensk stjórnvöld hafi boðið namibískum stjórnvöldum einhverskonar aðstoð vegna málsins var svarið nei. Hvorki utanríkisráðuneytinu né atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu hefði borist beiðnir um sérstaka aðstoð frá namibískum stjórnvöldum vegna málsins og hún því ekki verið boðin.