Miðstjórn Alþýðusambands Íslands lýsir yfir fullum stuðningi við verkfallsaðgerðir Eflingar-stéttarfélags.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá ASÍ sem birt hefur verið á vef sambandsins.
Eins og kunnugt er hefur Efling gripið til verkfallsaðgerða til að þrýsta á um kjarabætur fyrir félagsmenn, einkum konur sem starfa á leikskólum Reykjavíkurborgar.
Aðgerðirnar tengjast kjaradeilu félagsins vegna endurnýjunar kjarasamnings starfsfólks hjá Reykjavíkurborg, sem rann út 31. mars 2019.
Viðræður hafa engum árangri skilað.
„Kjarasamningarnir sem gerðir voru fyrir ári síðan fólu í sér þá sýn að leiðrétta lægstu launin, jafna kjörin og auka almenn lífsgæði. Verum trú þeirri sýn og þeirri vegferð! Miðstjórn ASÍ hvetur félagsmenn allra aðildarsamtaka sinna og annað launafólk til að virða aðgerðir Eflingar og stuðla að því að verkfallsbrot verði ekki framin,“ segir í tilkynningu ASÍ.