Icelandair tapaði 7,1 milljarði í fyrra, samanborið við 6,8 milljarða tap árið 2018. Á síðustu tveimur árum hefur tapið því verið tæplega 14 milljarðar króna.
Í tilkynningu til kauphallar segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, að kyrrsetningin á 737 Max vélum Boeing - sem hefur verið í gildi frá því í lok mars í fyrra á alþjóðavettvangi - hafi haft fordæmalaus áhrif á starfsemi félagsins. Uppgjörið sé í samræmi við áætlanir og væntingar stjórnenda félagsins.
„Árið í heild var krefjandi þar sem kyrrsetning MAX véla hafði fordæmalaus áhrif á rekstur Icelandair með töpuðum tekjum, auknum kostnaði og takmörkunum í nýtingu áhafna og flota félagsins. Með áherslu á aukna arðsemi leiðakerfisins og hagræðingu í rekstri náðist töluverður bati í undirliggjandi rekstri. Styrkur og sveigjanleiki leiðakerfisins gerði það að verkum að félagið gat aðlagað leiðakerfið hratt og örugglega að breyttum markaðsaðstæðum. Aukning á fjölda farþega til Íslands um 25% á árinu, þrátt fyrir kyrrsetningu MAX vélanna, ber þess merki. Félagið náði með þessum aðgerðum að mæta aukinni eftirspurn og tryggja sætaframboð til og frá Íslandi og styðja þannig við íslenska ferðaþjónustu,“ segir Bogi Nils í tilkynningu.
Ekki liggur fyrir enn hvenær kyrrsetningunni verður aflétt, en Boeing er nú til rannsóknar, meðal annars hjá alríkislögreglunni FBI, vegna slysanna sem urðu í Indónesíu 29. október 2018 og 13. mars í fyrra í Eþíópíu. Samtals létus 346 í þeim, allir um borð í báðum vélum, en allt bendir til þess að gallar í vélunum hafi verið meginorsök slysanna.
Markaðsvirði Icelandair er nú 44,5 milljarðar króna, en eigið fé félagsins nam tæplega 60 milljörðum í lok ársins.