Sé horft til útlána til fyrirtækja hjá Landsbankanum, stærsta banka landsins sem ríkið á að mestu (98,2 prósent), þá er sjávarútvegur langsamlega umfangsmestur þegar geirar atvinnulífsins eru skoðaðir.
Samtals námu útlán til sjávarútvegsins rúmlega 151,3 milljörðum króna í lok árs, og jukust þau um rúmlega fjóra milljarða frá stöðu mála í lok árs 2018.
Þetta kemur fram í skýringum samstæðureiknings, þar sem fjallað um áhættugrunn í efnahagsreikningi bankans.
Fasteignafélög eru einnig stór í útlánum hjá bankanum, með 139 milljarða, og þjónusta er með 137 milljarða króna.
Sé horft til áhættu bankans utan efnahagsreiknings, það er hámarksgreiðslur sem samstæðan gæti þurft að inna af hendi vegna ábyrgða, lánaskuldbindinga og óádreginna yfirdráttarheimilda og kreditkortaheimilda, þá nemur hún 167,9 milljörðum í tilviki sjávarútvegsins.
Þegar staða mála í byggingarstarfsemi er skoðuð er áhætta utan efnahagsreiknings um 53 milljarðar króna, og þar af eru ónýttar lánsheimildir 46 milljarðar, en heildar umfang útlána Landsbankans til byggingarstarfsemi nam rúmlega 98 milljörðum króna í lok ársins.
Eins og greint var frá í dag, þegar uppgjör Landsbankans var birt, hagnaðist Landsbankinn um 18,2 milljarða króna í fyrra. Heildareignir bankans - þar sem útlán eru stærsti þátturinn - námu 1.426 milljörðum króna í lok árs, og var eiginfjárhlutfall bankans 25,8 prósent, og eigið féð 247,7 milljarðar króna.
Einstaklingsviðskipti vega þyngst í grunnrekstri Landsbankans, eins og sést á útlánatölum bankans. Samtals námu útlán til einstaklinga 468 milljörðum króna í lok ársins.
Samanlagðar arðgreiðslur Landsbankans til íslenska ríkisins, nema um 150 milljörðum króna, frá árinu 2013 og með arðgreiðslu vegna ársins 2019, sem er áætluð að verði 9,5 milljarðar.