Hagnaður Landsbankans á árinu 2019 nam 18,2 milljörðum króna eftir skatta, samanborið við 19,3 milljarða króna á árinu 2018.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum vegna ársuppgjörs bankans.
Arðsemi eigin fjár eftir skatta var 7,5 prósent á árinu 2019, samanborið við 8,2 prósent arðsemi árið áður. Sé horft til kerfislægt mikilvægu bankanna þriggja, Íslandsbanka, Arion banka og Landsbankans, þá er arðsemin langsamlega mest hjá Landsbankanum, en líkt og í tilfelli Íslandsbanka er íslenska ríkið eigandi bankans.
Hreinar vaxtatekjur námu 39,7 milljörðum króna árið 2019 samanborið við 40,8 milljarða króna árið á undan. Eigið fé Landsbankans nam 247,7 milljörðum króna í lok árs.
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir í tilkynningu að skattheimta á stærri fjármálafyrirtæki skekki samkeppnisstöðuna. Hún segir að bankinn muni áfram leita leiða til að auka hagkvæmni í rekstri, líkt og hann hefur gert á undanförnum árum.
„Starfsfólk bankans hefur nýtt vel þau tækifæri sem hafa gefist til að efla viðskiptasambönd og á árinu 2019 buðum við fjölmarga nýja viðskiptavini velkomna. Þetta á jafnt við um fyrirtæki sem einstaklinga. Við erum stolt af því að hafa stutt við yfir eitt þúsund fjölskyldur og einstaklinga sem voru að stíga sín fyrstu skref á húsnæðismarkaðinum en bankinn var með 38% hlutdeild í íbúðalánum til fyrstu kaupa á árinu. Landsbankinn veitir samkeppnishæf kjör þar sem því verður við komið en það er öllum ljóst að erfitt er að keppa um kjör við aðila sem búa við lægri álögur en bankinn. Skattheimta á stærri fjármálafyrirtæki, sem jafnframt er mun meiri en í nágrannalöndunum, skekkir samkeppnisstöðuna verulega og kemur niður á kjörum til viðskiptavina. Landsbankinn mun áfram vinna að því að lækka rekstrarkostnað en stærstu tækifærin til þess liggja í áframhaldandi stöðlun og einföldun á sameiginlegum innviðum fjármálakerfisins,“ segir Lilja Björk.
Á árinu 2019 greiddi Landsbankinn 9,9 milljarða króna í arð til hluthafa en alls nema arðgreiðslur bankans um 142 milljörðum króna frá árinu 2013.
Eiginfjárhlutfall Landsbankans í árslok 2019 var 25,8 prósent, samanborið við 24,9 prósent í árslok 2018. Fjármálaeftirlitið gerir 20,5 prósent heildarkröfu um eiginfjárgrunn Landsbankans.
Bankaráð mun leggja til við aðalfund þann 27. mars 2020 að greiddur verði arður til hluthafa vegna ársins 2019 sem nemur 0,40 krónu á hlut, eða samtals 9,5 milljörðum króna.
Arðgreiðslan nemur um 52 prósent af hagnaði ársins 2019.
Heildareignir bankans námu um 1.426 milljörðum króna í lok árs.