Stjórn Ísfisks hf. hefur óskað eftir að félagið verði tekið til gjaldþrotaskipta. Skessuhorn greinir frá í dag en ástæðan er sögð vera sú að ekki hafi fengist fyrirgreiðsla fyrir fjármögnun á fasteign.
Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að ljóst sé eftir 39 ára samfellda starfsemi Ísfisks hf. að komið sé að leiðarlokum. Ísfiskur hafi verið framleiðslufyrirtæki á fiski allan þennan tíma án þess að vera með útgerð eða kvóta.
Félagið var lengst af til húsa í Kársnesinu í Kópavogi en flutti alla starfsemi sína á Akranes árið 2018. Í frétt Skessuhorns kemur fram að hjá fyrirtækinu hafi starfað á Akranesi um fimmtíu manns þegar mest var og því ljóst að brottfall þess sé mikið áfall fyrir atvinnulíf í bæjarfélaginu.
„Stjórn Ísfisks er svekkt yfir þessum málalokum og harmar þau í ljósi stöðu atvinnulífs og þess umhverfis rekstrar sem stjórnvöld hafs sett okkur í um áratuga skeið. Reynt var í nokkra mánuði að loka fjármögnun á félaginu en út af stóð að það gekk ekki að fjármagna fasteignina sem starfsemin flutti í fyrir nokkru. Leitað var til nokkurra aðila með það, en án árangurs,“ segir í tilkynningu frá stjórninni.
Takmörk fyrir því hvað hægt sé að leggja á eitt samfélag
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, segir á Facebook að gjaldþrot Ísfisks sé enn eitt höggið sem Akurnesingar verða fyrir. Því sé jafnframt orðið ljóst að endurkoma tæplega 50 fiskvinnslufólks til starfa hjá fyrirtækinu verði ekki að veruleika.
„Það liggur fyrir að flestir eygðu þá von að Ísfiskur myndi ná að endurfjármagna sig og hefja af fullum krafti vinnslu að nýju eftir nokkurra mánaða hlé, en nú er þeirri draumsýn endanlega lokið,“ skrifar hann.
Þá telur hann að takmörk séu fyrir því hvað hægt sé að leggja á eitt samfélag miklar hremmingar í atvinnumálum, en ekki verði undan því litið að atvinnuástand á Akranesi sé ekki glæsilegt um þessar mundir og sé þar vægt til orða kveðið.
„Að hugsa sér að fyrirkomulag um stjórn fiskveiða skuli vera þess valdandi að einn stærsti útgerðarbær landsins skuli hafa verið lagður í rúst, hvað varðar veiðar og vinnslu sjávarafurða,“ skrifar hann.
Vísar ábyrgðinni á stjórnmálamenn
Vilhjálmur segir að hugurinn sé hjá félagsmönnum sínum sem hafi þurft enn og aftur að upplifa tekjumissi og atvinnumissi, en stór hluti þeirra sem starfaði hjá Ísfiski fengu uppsögn hjá HB Granda þegar þeir fóru „í skjóli nætur í burtu frá Akranesi með allar okkar aflaheimildir árið 2017.“
Hann segist einnig finna til með forsvarsmönnum Ísfisks sem hann veit að reyndu allt til að bjarga fyrirtækinu með endurfjármögnun en því miður hafi það ekki tekist.
„En ég vísa ábyrgðinni á stjórnmálamenn sem hafa skapað þetta umhverfi í kringum fiskveiðistjórnunarkerfið þar sem einstaka útgerðarmenn eða útgerðir geta labbað út úr greininni og skilið fólkið eftir í djúpum sárum og um leið veitt samfélaginu öllu þungt högg í kviðinn með þeim afleiðingum að samfélagið er í keng!“
Enn eitt höggið sem við Akurnesingar verðum fyrir er orðið að staðreynd, en í dag rann upp sú stund að stjórn Ísfisks...
Posted by Vilhjálmur Birgisson on Friday, February 7, 2020