Guðmundur Ingi Guðbrandsson, ráðherra umhverfis- og auðlindamála og varaformaður VG, sagði í opnunarræðu sinni á flokksráðsfundi VG á Seltjarnarnesi, að flokkurinn hefði mikilvægu hlutverki að gegna að vera boðberi félagslegs réttlætis og náttúverndar í íslenskum stjórnmálum.
Sagði hann í ítarlegri ræðu sinni, að það ætti að vera verkefni VG að brjóta niður múra, og beita sér fyrir lausnum á málum, þvert á hið pólitíska landslag. „Ég vil að árið 2030 getum við litið til baka og sagt að okkur hafi tekist að takast á við loftslagsvána – með félagslegt réttlæti og náttúruvernd að leiðarljósi. Ég vil sjá umhverfismálin tengjast öllum öðrum málaflokkum með skýrum hætti. Við þurfum að brjóta niður múra og hugsa víðar og hugsa stærra. Umhverfismálin verða að vera meginstefnumál, rétt eins og kynja- og jafnréttismálin, og rétt eins og félagslegt réttlæti. Grænu málin og þau rauðu fléttast saman með ótvíræðum hætti. Breytingar í samfélaginu verða að eiga sér stað með sanngjörnum hætti og við verðum að tryggja að tækifæri efnaminna fólks séu svipuð og hjá þeim sem meira hafa milli handanna. Þetta er lykilatriði og hér hefur VG ríku hlutverki að gegna sem boðberi réttlætis,“ sagði Guðmundur Ingi, undir lok ræðu sinnar.
Hann sagði að VG hefði mikilvægu hlutverki að gegna í núverandi stjórnarmynstri, með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki.
„Á tuttuguogeins árs líftíma hreyfingarinnar okkar höfum við setið í ríkisstjórn í sex ár. Á sama tíma hefur Sjálfstæðisflokkurinn setið í 17 ár, Framsókn í 14 ár. Samfylkingin í 6 ár. Með þátttöku okkar í ríkisstjórn núna höfum við brotið valdamynstur á bak aftur. Og, við höfum sett vinstrikonu og umhverfisverndarsinna í stól forsætisráðherra. Við höfum hrist upp í pólitíkinni. En, það sem að mínu mati er sterkt við þetta ríkisstjórnarsamtarf er að ákvarðanir sem teknar eru þvert á pólitíska litrófið sem þessar stjórnmálahreyfingar spanna, slíkar ákvarðanir njóta breiðari stuðnings og eru líklegri til að halda óháð því hver taka við stjórnartaumunum næst. Eftir fyrsta þingveturinn minn hugsaði ég hve frábært það var að nærri því öll þingmálin sem ég hafði lagt fyrir Alþingi voru samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.
En að lokum er þetta alltaf spurningin um hvaða árangri við náum. Og, sú spurning, sú naflaskoðun, þarf að eiga sér stað reglulega. Ég tel okkur hafa náð mikilvægum málum fram á þessu kjörtímabili sem er rúmlega hálfnað. En við erum rétt að byrja. Og, það fer að koma að því að við spyrjum okkur, inn á við, hvert viljum við stefna næst. Að mínu mati eigum við að stefna ótrauð að því að leiða áfram næstu ríkisstjórn þannig að við getum haldið áfram að vinna grænu málunum og vinstri málunum brautargengi. Haldið áfram að búa til þá púslumynd félagslegs réttlætis og græns samfélags sem við stöndum fyrir og kvikum hvergi frá,“ sagði Guðmundur Ingi.
Fundurinn stendur yfir um helgina, en Katrín Jakobsdóttir, formaður VG og forsætisráðherra, er er nú að flytja ræðu sína, á fundinum, sem er í beinni útsendingu á vefnum.