Katrín Jakobsdóttir, formaður VG og forsætisráðherra, segir að verði að vera hagsmunamál íslensks atvinnulífs að starfa með opnum og gagnsæjum hætti, en lagabreytingar sem framundan eru, miðað meðal annars að því að auka gagnsæi meðal stærri fyrirtækja.
Hún sagði í ræðu sinni, að Samherjamálið hefði meðal annars sýnt fram á hversu mikilvægt það væri að hafa gagnsæi í rekstri.
Enn fremur gagnrýndi hún stjórnmálamenn, sem væru í því að sniðganga staðreyndir mála í málflutningi sínum, og grafa þannig undan trausti almennings á stjórnmálum.
„Réttar upplýsingar skipta öllu máli í lýðræðisþjóðfélagi og okkur ber öllum skylda til að gera okkar besta til að almenningur geti myndað sér skoðun byggða á staðreyndum. Núverandi ríkisstjórn hefur gert ýmsar breytingar til góðs hvað varðar rétt almennings til upplýsinga, vernd uppljóstrara og varnir gegn hagsmunaárekstrum. Eitt af því sem Samherjamálið sýndi okkur að þörf er á auknu gagnsæi í atvinnulífinu. Það á að vera hagsmunamál íslensks atvinnulífs að ástunda heiðarlega viðskiptahætti og starfa með opnum og gagnsæjum hætti. Þeim aðilum sem fara með rannsókn Samherjamálsins hefur verið tryggt nægjanlegt fjármagn til að geta sinnt henni með vönduðum hætti. En einnig þarf að huga að kerfisbreytingum til lengri tíma og sú vinna er þegar í farvegi. Með nýjum lögum verða nú frá 1. mars gerðar nýjar og ríkari kröfur um fyrirtæki upplýsi um raunverulega eigendur og á næstunni verður lagt fram frumvarp sem mun auka gagnsæi í rekstri stærri fyrirtækja í kerfislega mikilvægum greinum. Þetta er mikið hagsmunamál almennings og atvinnulífs í landinu,“ sagði Katrín.
Uppskera
Katrín sagði að árið í ár, verði ár mikillar uppskeru og breytinga, þegar kemur að lögum um landareignir og viðskipti með þær. Hún vísaði meðal annars til þess, að kannanir hefðu sýnt eindregin vilja fólks til þess að breyta lögum um viðskipti með landareignir.
„Árið 2020 verður ár stórra verkefna í stjórnmálum en líka mikillar uppskeru. Á næstu dögum mun ég kynna frumvarp um breytingar á lagaumgjörð um jarða- og fasteignaviðskipti. Þar verður kveðið á um skýrari skilyrði fyrir viðskipti aðila utan EES-svæðisins, aukið gagnsæi um jarðaviðskipti almennt, stórbættri skráningu í landeignaskrá og skyldu til að fá samþykki ráðherra fyrir kaupum á stærri jörðum og í tilfelli aðila sem eiga mikið landflæmi fyrir. Jafnframt er tekið á eignarhaldi tengdra aðila þannig að ekki sé hægt að fara í kringum regluverkið með kennitölukrúsidúllum. Stjórnvöld þurfa að hafa yfirsýn yfir landnotkun og eignarhald á landi og hafa ákveðin stýritæki – vegna fullveldishagsmuna, matvælaöryggis, auðlindanotkunar og hagsmuna komandi kynslóða. Ég bind vonir við að sem breiðust samstaða geti skapast á Alþingi um þetta mál sem almenningur hefur svo sannarlega kallað eftir. Samkvæmt nýlegri skoðanakönnun vilja 84% landsmanna frekari hömlur á jarðakaup. Hlustum á fólkið í landinu í þessu máli,“ sagði Katrín.