Verkfallsvakt Eflingar varð aðeins vör við eitt verkfallsbrot á fyrsta heila verkfallsdegi félaga í stéttarfélaginu hjá Reykjavíkurborg í gær, 6. febrúar. Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu Eflingar á Facebook í dag.
Samkvæmt stéttarfélaginu fólst verkfallsbrotið í ólögmætri sameiningu deilda á leikskóla og hefur brotið verið tilkynnt stjórnendum skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.
Verkfallsvaktin fór út í fimm hópum og heimsótti um 80 vinnustaði Reykjavíkurborgar þennan fyrsta verkfallsdag, að því er fram kemur í færslunni. Þá hafi verið litið inn á nokkra vinnustaði um kvöldið. Í verkfallsvakt er starfsfólk Eflingar ásamt félagsfólki í verkfalli sem boðið hefur fram krafta sína.
Vel tekið á móti verkfallsvörðum
„Sex staðir voru lokaðir, leikskólar og félagsmiðstöðvar, skert þjónusta var á flestum leikskólum og starfstöðum sem ekki voru með undanþágur. Verkfallsvarsla fór ekki í eftirlit í íbúakjarna eða í minni úrræði viðkvæmra hópa enda var gefin undanþága fyrir starfsemi þeirra,“ segir í færslu Eflingar.
Þá kemur fram að vel hafi verið tekið á móti verkfallsvörðum hvert sem þeir komu. Ljóst sé að mikil samstaða ríki meðal starfsfólks vinnustaða Reykjavíkurborgar og þjónustuþega.
„Við þökkum kærlega fyrir góðar móttökur og fyrir þann samhug sem starfsfólk frá öðrum stéttarfélögum, foreldrar barna og notendur þjónustu sem hefur skerst hafa sýnt.“
Verkfallsvakt Eflingar varð aðeins vör við eitt verkfallsbrot á fyrsta heila verkfallsdegi félaga í stéttarfélaginu hjá...
Posted by Efling on Friday, February 7, 2020