Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra stefnir að því að leggja fram tillögur um endurskoðun stjórnarskrár á haustþingi 2020. Hún segir að það eigi eftir að koma á daginn hversu mikil samstaða skapast um þær breytingar sem verða lagðar til en hún vonist til að sem breiðust samstaða verði um þær.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segist hins vegar ekki viss um að starfshópur formanna stjórnmálaflokkanna, sem fundað hefur um tillögurnar undanfarin ár, muni allur ná saman um tillögur. „Eitthvað er væntanlega hægt að klára, til að mynda auðlindaákvæðið, hefði ég haldið – það hefur verið þokkaleg samstaða um það. Svo er annað þarna sem ég hef miklar áhyggjur af og raunar það miklar að mér finnst að það geti sett framhald vinnunnar í uppnám.“ Þar nefnir hann sérstaklega ákvæði um framsal valds. RÚV greinir frá.
Stefnt að endurskoðun frá byrjun
Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar sem birt var þann 30. nóvember 2017 segir að ríkisstjórnin vilji halda áfram heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar og að nefnd um málið muni hefja störf í upphafi nýs þings. „Ríkisstjórnin vill halda áfram heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar í þverpólitísku samstarfi með aðkomu þjóðarinnar og nýta meðal annars til þess aðferðir almenningssamráðs. Nefnd um málið mun hefja störf í upphafi nýs þings og leggur ríkisstjórnin áherslu á að samstaða náist um feril vinnunnar.“
Á sjöunda fundi nefndarinnar, þann 8. október 2018, tilkynnti Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, nefndinni að hann vildi láta færa til bókar að hann telji þess ekki þörf að endurskoða stjórnarskránna í heild sinni heldur vinna áfram með helstu ákvæði, auðlindir, umhverfi, þjóðaratkvæði og framsalsákvæði.
Sigmundur Davíð tók undir með Bjarna og lét bóka það á fundi formanna stjórnmálaflokkanna 16. janúar 2019. Forsætisráðherra tók það aftur á móti fram á sama fundi að hún teldi það mikilvægt að formannanefnd ljúki því verkefni að endurskoða stjórnarskránna í heild sinni. Formenn Viðreisnar, Flokks fólksins og Framsóknarflokksins voru sammála þeirri bókun forsætisráðherra.
Í maí síðastliðnum lagði forsætisráðherra síðan fram tvö frumvarpsdrög er varða breytingar á stjórnarskránni til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda. Annars vegar er um að ræða frumvarp um umhverfisvernd og hins vegar frumvarp um auðlindir í náttúru Íslands. Yfir þrjátíu umsögnum var skilað inn um drögin.
Skiptar skoðanir um stjórnarskrá
Í september kynnti forsætisráðherra samráð stjórnvalda við almenning um endurskoðun stjórnarskrárinnar. Þar á meðal var skoðanakönnun sem framkvæmd var af Háskóla Íslands frá júlí til september í fyrra að beiðni forsætisráðuneytisins.
Markmið könnunarinnar var að draga fram sameiginleg grunngildi íslensku þjóðarinnar, kanna viðhorf hennar til tillagna sem komið hafa fram á undanförnum árum að breytingum á stjórnarskrá lýðveldisins og kortleggja sýn almennings á viðfangsefni stjórnarskrárinnar eins og þau eru útlistuð í minnisblaði forsætisráðherra um fyrirhugaða endurskoðun stjórnarskrár. Vert er að taka fram að ekki var spurt um tillögur stjórnlagaráðs í könnuninni.
Töluverður munur var á afstöðu til stjórnarskrárinnar eftir því hvar fólk staðsetti sig á vinstri og hægri skalanum. Af þeim sem staðsettu sig til vinstra söðgust 45 prósent vera óánægð með núgildandi stjórnarskrá en alls 21 prósent ánægð með stjórnarskránna. Til samanburður sögðust 64 prósent þeirra sem staðsetja sig meira til hægri vera ánægð með núgildandi stjórnarskrá en aðeins níu prósent sögðust vera óánægð með stjórnarskránna.
Í niðurstöðum könnunarinnar kom jafnframt fram að meirihluti landsmanna hafði litla eða enga þekkingu á stjórnarskránni eða alls 58 prósent. Þá sögðust 42 prósent hafa mikla eða nokkra þekkingu á stjórnarskránni.