Kristján Viðar Júlíusson, einn þeirra sem hlaut dóm í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum, hefur stefnt íslenska ríkinu og fer fram á 1,4 milljarða króna í bætur. Frá þessu er greint á RÚV.
Kristján Viðar var einn þeirra sem ríkið greiddi bætur til í síðasta mánuði þegar alls voru greiddar út 815 milljónir króna, að meðtöldum lögmannskostnaði, á grundvelli laga um bætur vegna sýknudóms Hæstaréttar í Guðmundar- og Geirfinnsmálum sem kveðinn var upp í fyrra. Af þeirri upphæð fóru 774 milljónir króna til þeirra fimm manna sem hlutu dóm í málunum, en voru síðar sýknaðir.
Kristján Viðar fékk þá 204 milljónir króna í bætur en hann var á sínum tíma dæmdur í 16 ára fangelsi í málinu. Bæturnar sem greiddar voru í málinu eru skattfrjálsar og skerða ekki bætur almannatrygginga eða sambærilegar greiðslur.
Í frétt RÚV kemur fram að Kristján Viðar hafi þrátt fyrir þetta ákveðið að stefna ríkinu og fara fram á áðurgreinda upphæð í bætur. Ástæðan sé meðal annars sú að hann telji sig eiga rétt á bótum vegna þess að hann var sekur maður að ósekju í tæpa fjóra áratugi til viðbótar við það að hafa setið á bak við lás og slá í sjö og hálft ár. RÚV segir að í stefnunni komi einnig fram að ríkið hafi bakað sér bótaskyldu með blaðamannafundi sem haldinn var árið 1977. Málið verður þingfest næstkomandi fimmtudag.
Endurupptökunefnd féllst í febrúar 2017 á að dómur Hæstaréttar í málinu sem felldur var árið 1980 skyldi tekinn upp hvað varðaði fimm sakborninga af sex. Þeir eru Albert Klahn Skaftason, Guðjón Skarphéðinsson, Kristján Viðar Júlíusson, Tryggvi Rúnar Leifsson og Sævar Marinó Ciesielski. Tveir síðastnefndu mennirnir eru látnir.
Endurupptökubeiðni Erlu Bolladóttur var hins vegar hafnað.
Allir sakborningarnir fimm voru svo sýknaðir í september 2018. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra lagði fram í ríkisstjórn í lok september síðastliðins frumvarp til laga um sanngirnisbætur í kjölfar sýknudóms Hæstaréttar í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu. Það var samþykkt á síðasta þingi og á grundvelli þeirra laga voru bæturnar greiddar út í janúar 2020.