Siðfræðistofnun Háskóla Íslands hefur skilað Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, framvinduskýrslu um innleiðingu tillagna starfshóps um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu. Í skýrslunni er lagt mat á árangur og viðleitni stjórnvalda til þess að mæta tillögum starfshópsins. Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins í dag.
Siðfræðistofnun telur tillögur starfshópsins vel ígrundaðar og rökstuddar. Stjórnvöld hafi nú þegar tekið skref að markmiðum sem heyra undir fimm af þeim átta meginsviðum sem skilgreind eru í skýrslu starfshópsins. Þá er það mat Siðfræðistofnunar að frumvörp forsætisráðherra í málaflokknum feli í sér veigamiklar umbætur verði þau öll að lögum.
Vilja að aukin sé símenntun á „sviði opinberra heilinda“
Samkvæmt Siðfræðistofnun eru aðgerðir stjórnvalda þannig vel viðunandi. Þó sé nauðsynlegt að leiða til lykta þá vinnu sem komin er á veg en er ólokið og hefja jafnframt undirbúning að verkefnum sem setið hafa á hakanum.
„Þau atriði sem út af standa og hafa fengið litla athygli hingað til eru ekki síður mikilvæg, en þau krefjast ekki sérstakrar lagasetningar heldur fyrst og fremt vilja og festu. Ekkert er því til fyrirstöðu að setja skýr markmið og gera áætlanir um endurskoðun og umgjörð siðareglna, aukna símenntun á sviði opinberra heilinda og eflingu gagnrýninnar umræðu. Þó ber að taka fram að ráðuneytið er fáliðað í þessu verkefni og spyrja má hvort ekki væri rétt að bæta úr því,“ segir í skýrslunni.
Stjórnvöld skilgreini hvaða markmið þau ætli að setja sér
Í niðurstöðum skýrslunnar kemur jafnframt fram að rétt sé að árétta að stjórnvöld hafi ekki tekið afdráttarlausa afstöðu til allra tillagna starfshópsins. Æskilegt sé að stjórnvöld skilgreini með skýrum hætti hvaða markmið þau ætli að setja sér og geri grein fyrir skuldbindingu sinni í þágu opinberra heilinda. „Í ljósi ættu stjórnvöld að setja fram stefnuskjal, eða móta heilindaramma, sem lýsir markmiðum um heilindi. Siðfræðistofnun leggur til að þetta verkefni verði sett í forgang á næstu misserum,“ segir í skýrslunni.
Starfshópur forsætisráðherra um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu skilaði skýrslu sinni í september árið 2018. Í skýrslunni voru settar fram tillögur að aðgerðum sem skipt var í átta meginsvið og 25 afmarkaðar tillögur. Í desember sama ár gerði forsætisráðuneytið samning við Siðfræðistofnun Háskóla Íslands um að stofnunin yrði stjórnvöldum til ráðgjafar í siðfræðilegum efnum og ynni með stjórnvöldum að eftirfylgni og innleiðingu tillagna starfshópsins.
Á vef Stjórnarráðsins kemur fram að þegar hafi eitt frumvarp forsætisráðherra orðið að lögum, en breytingar á upplýsingalögum sem fólu í sér útvíkkun gildissviðs laganna og betra aðgengi almennings að upplýsingum tóku gildi um mitt síðasta ár. Að auki hafi forsætisráðherra mælt fyrir frumvarpi til laga um vernd uppljóstrara og frumvarpi til laga um varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands og séu þau nú í meðförum þingsins.