Kórónaveiran er farin að hafa umfangsmikil neikvæð áhrif á gang efnahagsmála víðs vegar í Asíu, og sjá stjórnvöld í Singapúr fram á hrun í ferðaþjónustu í landinu. Fleiri ríki í álfunni sjá fram á svipaða þróun.
Yfir þúsund manns eru nú látnir, en líklegt er talið að tala látinna muni hækka hratt á næstunni, einkum í Kína.
Frá þessu var greint á vef Bloomberg í gær, en í Singapúr búa 5,6 milljónir manna en landið fékk rúmlega 18 milljónir ferðamanna til landsins árið 2018, og ferðaþjónusta er hryggjarstykki í efnahagslífi landsins.
Samkvæmt umfjöllun Bloomberg telja stjórnvöld í Singapúr að 25 til 30 prósent fall verði í ferðaþjónustu í landinu, vegna Kórónaveirunnar.
Keith Tan, yfirmaður samtaka ferðaþjónustunnar í Singapúr, segir í viðtali við Bloomberg að landið sé nú að tapa um 18 til 20 þúsund ferðamönnum á hverjum degi vegna veirunnar - frá því sem var fyrir hana – en gríðarlega umfangsmiklar ferðatakmarkanir eru nú víða í Asíu, ekki síst í Kína, sem miða að því að hefta útbreiðslu veirunnar.
Þá hafa skemmtiferðaskip verið kyrrsett, þar sem veiran hefur greinst meðal farþega, og þeim lokað og farbanni komið á, meðal annars í tæplega 1.500 manna farþegaskipi í Síngapúr.
Samkvæmt upplýsingum frá kínverskum yfirvöldum hafa nú 1.016 manns látið lífið vegna veirunnar, að því er breska ríkisútvarpið BBC greindi frá í gær.
Búist er við því að viðbúnaður muni fara vaxandi á meðal ríkja í Evrópu og annars staðar í heiminum, á næstu misserum, vegna útbreiðslu veirunnar. Ekki hefur þó verið gripið til mikilla ferðatakmarkana vegna hennar ennþá.