Arion banki hagnaðist um 1,1 milljarð í fyrra, en afkoman á síðustu þremur mánuðum ársins í fyrra var neikvæð um 2,7 milljarða króna, en á sama tímabili árið á undan var afkoman jákvæð um 1,6 milljarða.
Hagnaður á árinu 2018 var 7,7 milljarðar króna, og því versnaði afkoma bankans umtalsvert í fyrra miðað við árið á undan.
Benedikt Gíslason, bankastjóri, segir í tilkynningu til kauphallar að afkoma undirliggjandi rekstrar hafi farið batnandi að undanförnu.
„Við sjáum þess merki á fjórða ársfjórðungi að þær skipulags- og áherslubreytingar sem ráðist var í undir lok þriðja ársfjórðungs skila árangri því Arion banki hagnast um 5,2 milljarða króna af áframhaldandi starfsemi á fjórðungnum, sem er besti fjórðungur ársins 2019. Vaxtamunur hefur hækkað og dregið hefur úr rekstrarkostnaði á sama tíma og bankinn hefur fengið endurgreidd óarðbær útlán og greitt upp dýra fjármögnun. Góður vöxtur er einnig í afkomu tryggingastarfsemi og höfum við miklar væntingar til áframhaldandi samstarfs við Vörð, viðskiptavinum okkar til hagsbóta. Það er því margt í rekstri bankans sem lofar góðu varðandi framhaldið,“ segir Benedikt í tilkynningu.
Arðsemi eigin fjár var 0,6 prósent á árinu 2019, samanborið við 3,7 prósent á árinu 2018. Sé horft til uppgjörs kerfislægs mikilvægu bankanna þriggja - Íslandsbanka, Landsbankans og Arion banka - þá var arðsemi eigin fjár hjá Arion banka langsamlega minnst og afkoman lökust. Íslandsbanki hagnaðist um 8,5 milljarða og Landsbankinn um 18,2 milljarða.
Benedikt, sem tók við stjórnartaumunum í fyrra, segir í tilkynningu að eiginfjárstaða bankans sé sterk, og að endurskipulagning á rekstrinum - sem gripið var til þegar hann tók við - er farin að skila umtalsverðum árangri. „Eiginfjárstaða bankans er áfram mjög sterk og eitt af áhersluatriðum okkar nú er að ná fram hagstæðri fjármagnsskipan með útgáfu skuldabréfa sem flokkast sem eiginfjárþáttur 2 og viðbótar eigið fé þáttar 1, bæta notkun eigin fjár í rekstrinum og leggja aukna áherslu á starfsemi sem bindur minna eigið fé. Eigið fé er í raun skuld bankans við eigendur og er dýrasta fjármögnun bankans. Því skiptir miklu að hafa ekki meira eigin fé en þörf krefur,“ segir Benedikt.
Hann segir jafnframt, að lækkun eiginfjár bankans sé mikilvægur liður í því að bankinn nái markmiðum um 10 prósent arðsemi eiginfjár.
„Endurkaupaáætlun var hrint í framkvæmd síðla árs 2019 og arður greiddur út á árinu. Jafnframt stendur til að leggja fyrir aðalfund bankans í mars n.k. tillögu um frekari útgreiðslu arðs. Lækkun eiginfjár er mikilvægur liður í að bankinn nái markmiðum sínum um 10% arðsemi eiginfjár enda eru vaxtartækifæri sem bjóða ásættanlega arðsemi takmörkuð í lækkandi vaxtaumhverfi. Annar mikilvægur þáttur í að ná viðundandi arðsemi snýr að lánveitingum til stærri fyrirtækja. Sökum hárra eiginfjárkrafna og skatta er bankinn í raun ekki samkeppnisfær við lífeyrissjóði og erlenda banka þegar kemur að lánum til stærri fyrirtækja. Arion banki mun því gagnvart þessum fyrirtækjum leggja höfuðáherslu á að veita faglega ráðgjöf og aðstoða þau við að finna hagstæðustu fjármögnun hverju sinni, en auðvitað leggja þeim til lánsfé þegar svo ber undir. Hvað varðar lánveitingar til einstaklinga og lítilla og meðal stórra fyrirtækja er stefna bankans óbreytt og þrátt fyrir áherslu á arðsemi lánasafnsins umfram vöxt þá var á fjórða ársfjórðungi góður gangur í nýjum útlánum sem námu alls 24 milljörðum króna á fjórðungnum, þar af voru lán til einstaklinga um 10 milljarðar króna,“ segir Benedikt.
Í tilkynningu bankans, segir að stjórn hafi samþykkt metnaðarfulla umhverfis- og loftslagsstefnu, þar sem markmið bankans taka mið af Parísarsamkomulaginu. „Stjórn Arion banka samþykkti nú í desember metnaðarfulla umhverfis- og loftlagsstefnu og markmið fyrir næstu ár. Í stefnunni felst að við sem störfum hjá bankanum viljum leggja okkar af mörkum til að Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart Parísarsamkomulaginu og öðrum innlendum og erlendum loftlagssáttmálum. Markmið okkar á árinu 2020 er að meta lánasafn bankans út frá grænum viðmiðum og setja okkur markmið í þeim efnum. Munum við einnig í auknum mæli beina sjónum okkar að fjármögnun verkefna sem snúa að sjálfbærri þróun og grænni innviðauppbyggingu. Að auki munum við í mati okkar á birgjum gera kröfu um að þeir taki mið af áhrifum sinnar starfsemi á umhverfis- og loftlagsmál.“
Markaðsvirði Arion banka er nú 154 milljarðar króna, en stjórn bankans leggur til 10 milljarða arðgreiðslu til hluthafa félagsins, vegna ársins í fyrra. Arion banki er skráður á markað á Íslandi og í Svíþjóð.