Landsbankinn hf. hefur í dag lokið sölu á nýjum 4,25 ára skuldabréfaflokki að fjárhæð 300 milljónir evra, eða sem nemur rúmlega 40 milljörðum króna, með lokagjalddaga í maí 2024 og bera skuldabréfin fasta 0,50 prósent vexti.
Þetta kemur fram í tilkynningu bankans til kauphallar.
Skuldabréfin voru seld á kjörum sem jafngilda 83 punkta álagi á miðgildi vaxtatilboða í vaxtaskiptasamningum á markaði, segir í tilkynningu. „Heildareftirspurn nam yfir 800 milljónum evra frá meira en níutíu fjárfestum. Skuldabréfin voru seld til stofnanafjárfesta í Bretlandi, meginlandi Evrópu og Norðurlöndum. Skuldabréfin verða gefin út undir EMTN-útgáfuramma bankans og er stefnt að töku skuldabréfanna til viðskipta í írsku kauphöllinni þann 20. febrúar 2020,“ segir í tilkynningu frá Landsbankanum en umsjónaraðilar sölunnar voru Barclays, BofA Securities og J.P. Morgan.
Landsbankinn var rekinn með 18,2 milljarða króna hagnaði í fyrra, en eigið fé bankans í lok árs var 247,7 milljarðar króna og eiginfjárhlutfallið 25,8 prósent.
Íslenska ríkið á nær allt hlutafé bankans, eða um 99 prósent. Haft var eftir Lilju Björk Einarsdóttur, bankastjóra Landsbankans, að rekstur bankans hefði gengið vel í fyrra, og í samræmi við áætlanir, en arðsemi eigin fjár bankans var 7,5 prósent.
Landsbankinn er stærstu banka á Íslandi, með heildareignir yfir 1.400 milljörðum króna.