Spár gera ráð fyrir að sérlega djúp lægð nálgist landið úr suðvestri á morgun og hefur Veðurstofa Íslands gefið út appelsínugula viðvörum fyrir allt landið.
Vegna þessa hefur skrifstofa Sjálfstæðisflokksins sent bréf á trúnaðarmenn flokksins og aflýst fyrirhugaðri móttöku vegna fimmtugsafmælis Bjarna Benediktssonar, formanns flokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, sem halda átti á morgun, föstudag, en hann átti afmæli þann 26. janúar síðastliðinn.
Í bréfinu, sem Kjarninn hefur undir höndum, segir að útlit sé fyrir óveður á föstudaginn kemur. „Móttöku, sem halda átti í tilefni 50 ára afmælis formanns flokksins og því að á síðasta ári fagnaði hann 10 árum sem formaður flokksins, hefur því verið frestað um óákveðinn tíma.“
Búast má við roki eða ofsaveðri
Á vef Veðurstofunnar segir að búast megi við austlægum stormi, roki eða ofsaveðri á föstudaginn, hvassast sunnantil á landinu framan af degi. Víða verði snjókoma eða slydda, úrkomumest sunnan- og austanlands.
„Víðtækar samgöngutruflanir eru líklegar, ekkert ferðveður er á meðan viðvörunin er í gildi. Líkur eru á foktjóni, sérílagi sunnantil á landinu. Fólki er bent á að sýna varkárni til að fyrirbyggja slys og festa lausamuni eins og frekast er kostur. Einnig má búast má við hárri sjávarstöðu vegna áhlaðanda,“ segir í veðurspánni.