Rio Tinto, sem á álverið í Straumsvík, ætlar að hefja „sérstaka endurskoðun á starfsemi álversins í Straumsvík til að meta rekstrarhæfni þess til framtíðar“.
Þetta kemur fram í tilkynningu á heimasíðu félagsins. Í fyrirhugaðri endurskoðun verða allar leiðir skoðaðar, þar á meðal frekari framleiðsluminnkun og mögulega lokun. Endurskoðunarferlinu verður lokið á fyrri helmingi árs 2020.
Í tilkynningunni segir að Rio Tinto vilji leita leiða til þess að bæta samkeppnisstöðu álversins, en að gert sé ráð fyrir því að rekstur þess verði áfram óarðbær til skemmri tíma sökum ósamkeppnishæfs orkuverðs og lágs verðs á áli í sögulegu samhengi.
Rio Tinto segist nú leita allra leiða til að gera álverið arðbært og samkeppnishæft á alþjóðamörkuðum, meðal annars með samtali við stjórnvöld og Landsvirkjun. Það samtal snýst um að reyna að lækka raforkuverð sem samið var um í nýjum samningum sem gerðir voru árið 2010.
Vegna taprekstrar hefur framleiðsla álversins í Straumsvík þegar verið minnkuð í 85 prósent af afkastagetu álversins. Áætluð fjárhagsleg áhrif þess á tekjur Landsvirkjun, sem selur því rafmagn, er tekjuminnkun um 2,5 milljarða króna á ári. Álverið er að fullu í eigu Rio Tinto og þar starfa um 500 manns.