Fjölmargar skemmtilegar hugmyndir að nafni á nýtt sameinað sveitarfélag Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar bárust í samkeppni þar um. Ljóst er að kímnin er ofarlega í hugum margra þeirra sem skiluðu tillögum. Aðrar eru hefðbundnari og ýmsar vísa til örnefna á svæðinu.
Í ítarlegri frétt Austurfréttar kemur fram að 112 tillögur hafi borist að 62 nöfnum.
Nafnanefnd sem í eiga sæti fulltrúar allra gömlu sveitarfélaganna auk ungmennaráðs Fljótsdalshéraðs mun funda á föstudaginn og ákveða hvaða tillögur verða sendar til umsagnar Örnefnanefndar.
Í framhaldi af umsögn leggur nefndin síðan til þrjú til fimm nöfn sem íbúar geti kosið á milli samhliða kosningum til sveitarstjórnar. Sú atkvæðagreiðsla verði þó einungis ráðgefandi fyrir nýja sveitarstjórn sem taki ákvörðun um nafn á nýja sveitarfélagið.
Meðal nafna sem bárust eru Álfabyggð, Arðbær, Austurríki, Drekabæli, Frábær, Grautarbyggð, Hreppur rísandi sólar og Sameinuðu austfirsku furstadæmin.
Hér má lesa listann með öllum tillögunum á vef Austurfréttar.