Norska ríkissjónvarpið NRK fullyrðir á vef sínum að DNB bankinn, sem er í 34 prósent eigu norska ríkisins, hafi sagt upp viðskiptum sínum við íslenska sjávarútvegsfyrirtækið Samherja.
Í kjölfar umfjöllunar Kveiks, Stundarinnar, Wikileaks og Al Jazeera um viðskiptahætti Samherja í Namibíu, þar sem kom fram að fjármunir sem urðu til vegna meintrar skattasniðgöngu eða peningaþvættis Samherja hefðu endað inni á reikningum hjá DNB, hóf bankinn innanhúsrannsókn á viðskiptum sínum við fyrirtækið. Í lok nóvember 2019 greindi það svo frá þvi að norska efnahagsbrotalögreglan Økokrim væri að rannsaka bankann, í tengslum við rannsókn á viðskiptaháttum Samherja.
Umfjöllun ofangreindra fjölmiðla leiddi í ljós að hluti þeirra peninga sem Samherji færði inn á reikninga í DNB í Noregi, sem voru meðal annars notaðir til að greiða sjómönnum í Afríku laun, væru frá félagi skráð í skattaskjólinu Marshall-eyjum.
DNB lokaði á reikningana á árinu 2018 vegna þess að hann taldi óvissu um hver væri raunverulegur eigandi félaganna sem nýttu þá og að verið væri að nota þá til að stunda peningaþvætti. Norska efnahagsbrotalögreglan er að skoða þennan anga málsins auk þess sem hann hefur verið til skoðunar innan bankans.
Í umfjöllun Kveiks kom fram að Samherji hefði nýtt sér tvísköttunarsamning við eyjuna Máritíus í viðskiptum sínum í Namibíu og flutt hagnað sem varð til vegna veiða þar í lágskattarskjólið Kýpur, þar sem Samherji hefur stofnað tug félaga á undanförnum árum. Frá Kýpur fóru peningarnir svo inn á bankareikning Samherja í norska bankanum DNB, sem er að hluta í eigu norska ríkisins.
Opinberunin byggði annars vegar á tugþúsundum skjala og tölvupósta sem sýndu viðskiptahættina svart á hvítu, og hins vegar á frásögn Jóhannesar Stefánssonar, fyrrverandi verkefnastjóra Samherja í Namibíu, sem játaði á sig fjölmörg lögbrot og sagðist hafa framið þau að undirlagi Þorsteins Más Baldvinssonar, þáverandi forstjóra Samherja og eins aðaleiganda fyrirtækisins, og Aðalsteins Helgasonar, sem var lengi yfir útgerð Samherja í Afríku.