Fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist nú 22 prósent, sem er þremur prósentustigum meira en í síðustu könnun MMR sem gerð var í seinni hluta janúar en 1,7 prósentustigum meira en var í upphafi janúar.
Samfylkingin mælist með 15,1 prósent fylgi, einu og hálfu prósentustigi minna en við síðustu mælingu en Miðflokkurinn mælist með 13,3 prósent fylgi, tæplega tveimur prósentustigum minna en við síðustu mælingu. Þá mælast Vinstri græn með 10,7 prósent fylgi og Píratar með 10,4 prósent fylgi.
Stuðningur við ríkisstjórnina mælist nú 41,9 prósent, samanborið við 38,9 prósent í síðustu könnun.
Fylgi Viðreisnar mælist nú 9,7 prósent og mældist 12,4 prósent í síðustu könnun. Fylgi Framsóknarflokksins mælist 6,8 prósent og fylgi Sósíalistaflokks Íslands með 5,3 prósent. Fylgi Flokks fólksins mælist 4,6 prósent en stuðningur við aðra mælist 2,1 prósent samanlagt.
Alls svöruðu 1.003 einstaklingar, 18 ára og eldri, en könnunin var framkvæmd dagana 6. til 10. febrúar 2020.