Hagnaður Íslandsbanka, sem íslenska ríkið á, eftir skatta nam 8,5 milljörðum króna í fyrra, en árið 2018 var hagnaðurinn 10,6 milljarðar. Arðsemi eigin fjár var 4,8 prósent á ársgrundvelli, en sama hlutfall var 6,1 prósent.
Þetta kemur fram í afkomutilkynningu bankans til kauphallar.
Stjórn Íslandsbanka leggur til að 4,2 milljarðar verði greiddir í arð, vegna ársins í fyrra, en það er í samræmi við arðgreiðslustefnu bankans um útgreiðslu 40 til 50 prósent af hagnaði í arð.
Á síðasta ársfjórðungi ársins var hagnaðurinn 1,7 milljarðar króna, en á sama tíma ári fyrra var hann 1,4 milljarðar.
Hreinar vaxtatekjur voru 33,7 milljarðar króna sem er 5,4 prósenta hækkun milli ára og var vaxtamunur 2,8 prósent.
Hreinar þóknanatekjur voru 13,4 milljarðar króna sem er 9,3 prósent hækkun frá 2018.
Virðisbreyting útlána var neikvæð um 3,6 milljarða á tímabilinu samanborið við jákvæða virðisbreytingu um 1,6 milljarða árið áður.
Stjórnunarkostnaður jókst um 1,7 prósent milli ára og nam 28,1 milljarði. Hækkunin stafar af launakostnaði vegna starfsloka sem áttu sér stað á árinu 2019 og aukinna afskrifta vegna grunnkerfa, segir í tilkynningu.
Kostnaðarhlutfall samstæðu á tímabilinu var 62,4% samanborið við 66,3% á sama tímabili 2018, en kostnaðarhlutfall móðurfélags var 57,1% samanborið við 60,4% á árinu 2018. Helstu kostnaðarliðir sem voru umfram áætlanir var tap á fjárfestingareignum og kostnaður vegna starfsloka.