Sé horft til þeirra banka á Íslandi sem skilgreinast sem kerfislægt mikilvægir, Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankans, þá var afkoma Arion banka áberandi lökust í fyrra.
Hagnaður bankans var 1,1 milljarður króna, en hjá Landsbankanum var hann 18,2 milljarðar og hjá Íslandsbanka 8,5 milljarðar.
Óhætt er að segja að mörg áföll hafi dunið yfir hjá Arion banka, sem ollu miklu tapi fyrir bankann í fyrra.
Þar á meðal eru fall WOW air, Primera og gjaldþrot United Silicon í Helguvík er enn að draga dilk á eftir sér. Samanlagt tjón er vel á annan tug milljarða króna, vegna falls þessara fyrirtækja, sem öll voru í viðskiptum við bankann fyrir fall þeirra.
Þá hefur rekstur dótturfélagsins Valitor gengið afar illa undanfarin misseri, en bókfært virði félagsins er nú 6,5 milljarðar en var 16 milljarðar árið áður. Um tíu milljarða tap var á rekstri félagsins í fyrra.
Undirliggjandi rekstur hefur farið batnandi, segir Benedikt Gíslason, bankastjóri, í tilkynningu til kauphallar, en bankinn er skráður á markað á Íslandi og í Svíþjóð.
Óhætt er að segja að bankinn sé órafjarri því að ná markmiði sínu, þegar kemur að arðsemi eigin fjár, sem er algengt viðmið sem horft er til í rekstri banka.
Arðsemin var 0,6 prósent í fyrra, en markmið stjórnar bankans er 10 prósent.
Íslandsbanki og Landsbankinn, sem eru báðir í eigu ríkisins, eru með mun betri rekstrarafkomu, á nær alla mælikvarða. Hagnaðurinn er mun meiri, eins og áður segir, og arðsemi eigin fjár og kostnaðarhlutföll, það er hlutfall rekstrarkostnaðar af rekstrartekjum, sömuleiðis hagstæðari.
Arðsemi eiginfjár var 7,5 prósent hjá Landsbankanum og 4,8 prósent hjá Íslandsbanka.
Tillögur fyrir aðalfundi bankanna gera ráð fyrir arðgreiðslum sem nema um helmingi árlegs hagnaðar. Það er um 9,5 milljarðar hjá Landsbankanum og 4,2 milljarðar hjá Íslandsbanka.
Samtals hefur íslenska ríkið fengið nærri 250 milljarða í arðgreiðslur frá Landsbankanum og Íslandsbanka, frá árinu 2013, séu tillögurnar vegna ársins í fyrra teknar með í reikninginn.
Stjórn Arion banka gerir tillögu um að arðgreiðsla til hluthafa, vegna rekstursins í fyrra, verði tíu milljarðar króna, eða sem nemur um níföldum hagnaði bankans í fyrra.
Landsbankinn er stærstur íslensku bankanna, sé horft til heildareigna, en þær námu um 1.426 milljörðum króna í lok árs í fyrra. Hjá Íslandsbanka voru heildareignir 1.199,5 milljarðar og hjá Arion banka 1.082 milljarðar.
Á þennan mælikvarða er því Landsbankinn stærstur, Íslandsbanki næst stærstur og Arion banki kemur þar á eftir.
Eigið fé Arion banka nam 190 milljörðum króna í lok ársins, hjá Landsbankanum var það 247,7 milljarðar og hjá Íslandsbanka 180,1 milljarði. Samanlagt 617,8 milljarðar króna, en þar af nemur eigið fé ríkisbankanna tveggja, samanlagt 427,8 milljörðum króna.