Þeim Íslendingum fjölgar sem telja að hækkun á hitastigi jarðar síðustu öld sé meira vegna náttúrulegra breytinga í umhverfinu. Nú telja 23 prósent landsmanna að svo sé en 66 prósent telja hækkunina vera vegna mengunar af mannavöldum.
Þetta kemur fram í nýrri umhverfiskönnun Gallup sem birt var í dag.
Er þetta töluverð breyting frá fyrri könnun fyrir rúmu ári síðan þegar 14 prósent töldu hækkun á hitastigi jarðar vera vegna náttúrulegra breytinga í umhverfinu.
Í könnuninni kemur fram að viðhorfsbreytingin sé almenn, en þeim sem segja hækkun á hitastigi jarðar vera vegna náttúrulegra breytinga fjölgar í flestum hópum milli mælinga en helst er hún hjá fólki á aldrinum 45 til 55 ára þar sem hún lækkar um 20 prósentustig milli mælinga.
Ólafur Elínarson, sviðsstjóri markaðsrannsókna Gallup, segir að gríðarlegt mikilvægt sé að fylgjast með þróun á viðhorfum til loftslagsmála og í raun nauðsynlegt að hafa gögn um stöðuna.
„Þessi niðurstaða sýnir að viðhorf geta breyst á skömmum tíma og virðast nú fleiri Íslendingar telja að hækkun á hitastigi jarðar sé af náttúrunnar völdum miðað við síðustu könnun þó svo að mikill meirihluti telji hækkunina af mannavöldum,“ segir hann.