Stóru bankarnir þrír, Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn, fækkuðu um 214 starfsmenn á árinu 2019, samanborið við árið á undan.
Arion banki var með 801 starfsgildi í lok árs í fyrra, en 904 árið á undan, og fækkaði því um 103 starfsgildi milli ára.
Íslandsbanki var með 749 starfsmenn í lok árs, en 834 í lok árs 2018. Starfsgildum fækkaði því um 85 milli ára.
Landsbankinn var með 893 starfsmenn í lok árs, en 919 í lok árs 2018. Starfsgildum fækkaði því um 26 milli ára.
Hagnaður bankanna allra dróst saman milli ára, en var þó samtals 27,8 milljarðar króna. Bróðurparturinn var hjá Landsbankanum, eða 18,2 milljarðar, en hagnaður Íslandsbanka var 8,5 milljarðar.
Hagnaður Arion banka var 1,1 milljarður, en rekstrarafkoma bankans á árinu 2019 litaðist töluvert af miklu tapi sem tengdist falli WOW air, Primera, United Silicona og slæmum rekstri dótturfélagsins Valitor, sem tapaði tíu milljörðum í fyrra.
Samanlagt eigið fé bankanna nam 617,8 milljörðum króna í lok árs, og þar af eigið fé Landsbankans 247,7 milljarðar króna.
Landsbankinn er stærstur íslensku bankanna, sé horft til heildareigna, en þær námu um 1.426 milljörðum króna í lok árs í fyrra. Hjá Íslandsbanka voru heildareignir 1.199,5 milljarðar og hjá Arion banka 1.082 milljarðar.
Kvartað til ESA
Á mánudag var greint frá því að Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja (SFF) hefðu sent kvörtun til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) vegna brotalama á framkvæmd hópuppsagna á Íslandi. Kvörtunin var send eftir að samtökin komust að þeirri niðurstöðu að Arion banki hefði ekki farið að lögum um hópuppsagnir þegar bankinn sagði upp 102 starfsmönnum í september 2019, meðal annars með vísun í að ávöxtun eigin fjár bankans væri ekki nægilega góð.
Í bréfi sem samtökin sendu Ásmundi Einari Daðasyni, félags- og barnamálaráðherra, og til velferðarnefndar Alþingis á mánudag sagði að niðurstaða skoðunar SFF hefði verið sú að Arion banki hefði ekki virt skyldu sína til samráðs við trúnaðarmenn starfsmanna með neinum raunhæfum hætti í aðdraganda uppsagnanna og hefði þannig brotið gegn ákvæðum laga um hópuppsagnir. „Þó sé jafnframt ljóst að lögin hafi ekki að geyma nein raunhæf réttarúrræði til að bregðast við brotum af þessum toga. Með bréfi þessu er ætlun SFF aog ASÍ að vekja athygli ráðherra og þingnefndar á þessum annmörkum sem virðast vera á lögum um hópuppsagnir“.
SFF sagði að gera þyrfti bragabót á lögunum til að þau hafi eitthvað raunverulegt gildi, en væru ekki einungis „orðin tóm“ þar sem brot á þeim séu „algjörlega viðurlagalaus“.
Auk þess telja samtökin að íslenska ríkið kunni að hafa brotið gegn skyldum sínum til að innleiða ákveðna tilskipun Evrópusambandsins um hópuppsagnir og að hún hafi ekki verið rétt innleidd á sínum tíma. Vegna þess sé samráð við stéttarfélög við framkvæmd hópuppsagna ófullnægjandi. Vegna þessa hefur SFF sent inn kvörtun til ESA.