Gylfi Zoega, hagfræðiprófessor og nefndarmaður í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands, heldur áfram að fjalla um stöðu mála í íslenska hagkerfinu, með hugtakið „hálaunaland“ í forgrunni.
Í nýjustu útgáfu Vísbendingar, fjallað hann um hagstjórn í hálaunalandi, en þar á undan var fjallað um efnahagslífið í hálaunalandi.
Í greininni segir Gylfi að krefjandi aðstæður séu nú að skapast, og uppnám á vinnumarkaði geti leitt til meiri erfiðleika.
Þá þurfi einnig að velja vel innviðaframkvæmdir, sem þarf að ráðast í. Ekki sé hægt að eyða um efni fram, þó hallarekstur á ríkissjóði komi vel til greina til að fjármagna innviðaframkvæmdir.
„Það má auðvitað færa fyrir því rök að það sé nauðsynlegt að bæta innlenda vegi, brýr, heilbrigðisþjónustu o.s.fr. og því ekki að gera það á meðan byggingakranarnir eru enn í landinu? En þótt það geti verið skynsamlegt að ráðast í slíkar framkvæmdir, fjármagnaðar með nýjum sköttum eða hallarekstri ríkissjóðs, þá er mikilvægt að miða þær og val á framkvæmdum við hagkvæmni fjárfestinga. Hættan er sú að á kosningaári verði þær framkvæmdir fyrir valinu sem mest auka vinsældir stjórnarflokka hverju sinni.
Lokaorð
Vinnumarkaður í uppnámi, verkföll og launakröfur sem ekki samræmast þeim samningum sem gerðir voru í mars á síðasta ári, mikill kostnaður fyrirtækja, fækkun ferðamanna vegna hás verðlags og hækkandi launakostnaður á framleidda einingu kallar á aðhald í peningastefnu og fjármálum ríkisins
Til skamms tíma getur hagkerfið orðið fyrir skell ef farsótt tekur að breiðast út um Evrópu. En slíkur skellur krefst annars konar viðbragða en þeirra sem felast í hefðbundinni peningastefnu og fjármálastefnu ríkisins. Þá verður að tryggja að fyrirtæki geti staðið í skilum þótt starfsemi sé í lágmarki og að nauðsynjum sé komið til almennings. Það þarf ekki einungis að gera áætlanir um viðbrögð heilbrigðiskerfisins heldur einnig efnahagsleg viðbrögð,“ segir Gylfi meðal annars, í lok greinar sinnar.
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu hér.