Maní Shahidi og fjölskyldu hans verður ekki vísað úr landi dag. Brottvísuninni hefur verið frestað vegna annarlegs ástands Maní, en hann var í gær lagður inn á barna- og unglingageðdeild Landspítalans, í hvíldarinnlögn.
Lögreglan hefur staðfest þetta við Claudia Ashonie Wilson, lögmann fjölskyldunnar, en frá þessu er greint í stöðuuppfærslu hjá No Borders Iceland.
Töluvert hefur verið fjallað um málið en blásið var til mótmæla í gær fyrir framan dómsmálaráðuneytið. Þær sem stóðu að viðburðinum eru mæður trans barna. Þá var fólk jafnframt hvatt til að skrifa undir áskorun þess efnis að styðja við Maní og fjölskyldu hans.
Búinn að vera hér á landi í tæpt ár
Maní er 17 ára gamall trans strákur sem kom til Íslands með foreldrum sínum þann 5. mars árið 2019. Fram kemur á viðburði mótmælenda að Maní sé nemandi við Fjölbrautaskóla Suðurnesja þar sem hann hafi fest rætur, eignast vini og tengst samfélaginu. „Maní er í sérstaklega viðkvæmri stöðu en rannsóknir hafa sýnt fram á að trans ungmenni búa við verri andlega heilsu og eiga í meiri hættu á félagslegri einangrun.“
Síðastliðinn mánudag tilkynnti lögreglan fjölskyldunni að henni yrði vísað á brott og að flytja ætti þau úr landi mánudagsmorguninn 17. febrúar. Fjölskyldan yrði þá flutt til Portúgal þar sem þau dvöldu í nokkra daga áður en þau komu til Íslands. Þar hafa þau ekki hlotið vernd, heldur sjö daga vegabréfsáritun sem þau notuðu til að komast til Íslands.
„Hræðilegt“ að dómsmálaráðherra hafi ekki gripið inn í
Á síðu No Borders kemur fram að þó að það hafi verið mikill léttir að brottvísuninni hafi verið frestað, þá sé „vægast sagt hrikalegt að dómsmálaráðherra, Útlendingastofnun, kærunefnd eða lögreglan hafi ekki gripið inn í, en öll hafa þau vald til að fresta brottvísuninni. Því það var vissulega ekki réttlæt málsmeðferð yfirvalda sem stöðvaði brottvísunina í nótt, heldur var það hörmulegt andlegt ástand 17 ára unglings.“
Enn fremur telja samtökin að barn eigi ekki að þurfa að hrynja niður í dýpsta myrkur og þurfa á neyðaraðstoð lækna, til þess að lögreglan, Útlendingastofnun og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hlusti.
Telja málið ekki nægilega vel rannsakað
Samkvæmt No Borders hefur það verið ljóst frá fimmtudegi að málið hafi ekki verið nægjanlega rannsakað og að um hugsanleg brot á rétti Maní til að tjá sig við yfirvöld hefðu átt sé stað í málsmeðferðinni. „Útlendingastofnun á að hafa verið á vakt um helgina að fara yfir mál Maní og fjölskyldu hans, en samt var engum tölvupóstum lögmanns þeirra svarað, né þeirra eigin beiðni eftir gögnum. Ekki var heldur tekið tillit til þess að stormurinn á föstudaginn hefði valdið því að lögmaður gat ekki fengið öll umbeðin.
Á meðan við biðum eftir Maní þar sem hann var í viðtali hjá barnageðlækni, hringdi lögregla stoðdeildar í Shokoufa, móðurina, til að vita hvar þau væru. Svo virðist sem það hafi átt að framkvæma brottvísunina þrátt fyrir all sem á undan var gengið. Sem betur fer þvertóku læknar fyrir að brottvísunin færi fram í nótt.“
Þau reikna enn fremur með því að baráttan þurfi að halda áfram næstu daga. „Vonandi nær Maní að hvíla sig í ró sem ætti að vera svo sjálfsögð fyrir barn, á meðan við hin klárum þetta mál!“ segir að lokum í stöðuuppfærslu No Borders.
***NÝJAR FRÉTTIR AF STÖÐU MANÍ OG FJÖLSKYLDU***** ((NEWS ON MANI'S CASE - English below)) Brottvísuninni hefur verið...
Posted by No Borders Iceland on Sunday, February 16, 2020