Fréttastofa RÚV hefur beðist velvirðingar á staðhæfingu sem kom fram í frétt síðastliðinn fimmtudag, þar sem fjallað var Samherja og þróunaraðstoð.
Í fréttinni var fullyrt að Samherji hefði aflað sér kvóta með því að múta embættismönnum, eins og fjallað hefði verið um í umfjöllun fréttaskýringarþáttarins Kveiks.
„Fréttastofan biðst velvirðingar á þeirri staðhæfingu sem fram kom í fréttinni á fimmtudag en ítrekar að allt sem kom fram í þætti Kveiks um Samherjamálið 12.nóvember 2019 og í öðrum fréttum um málið, stendur,“ segir í umfjöllun um leiðréttinguna, í frétt á vef RÚV.
Í fréttinni segir að hið rétta sé að Samherji hafi verið borinn þeim sökum, er varðar mútugreiðslur.
Í erindi, sem greint var frá á vef Kjarnans í dag, krefst Samherji afsökunarbeiðni og leiðréttingar á meiðandi fréttaflutningi. Samherji hefur verið í miklu brimróti undanfarna mánuði eftir umfjöllun Kveiks, Stundarinnar, Al Jazeera og Wikileaks um mútugreiðslur, meint peningaþvætti og skattsniðgöngu Samherja, sem byggði að mestu á tugþúsundum gagna og uppljóstrun Jóhannesar Stefánssonar, fyrrverandi starfsmanns Samherja í Namibíu.
Í bréfi sem lögmenn Samherja hafa sent til RÚV segir að fullyrðing fréttamannsins, Hallgríms Indriðasonar, eigi sér „enga stoð í raunveruleikanum og er úr lausu lofti gripin.“
Þar segir enn fremur að mál Samherja sé fréttastofu RÚV „undarlega hugleikið“, að í fréttinni sé því haldið fram að starfsmenn Samherja hafi gerst sekir um alvarlega refsiverða háttsemi með því að múta embættismönnum í Namibíu, en þeir hafi hvorki verið sakfelldir né ákærðir fyrir slíka háttsemi. Auk þess sé enginn starfsmaður Samherja með réttarstöðu sakbornings vegna málsins.
Eins og áður segir, hefur fréttastofa RÚV nú leiðrétt þessi atriði, en stendur að öðru leyti við allan fréttaflutning sinn af málinu - bæði af hálfu Kveiks og fréttastofunnar.