Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur það ekki til sérstakrar skoðunar að takmarka sölu á orkudrykkjum, þrátt fyrir að embætti Landlæknis telji að banna ætti sölu á slíkum sem innihalda 320 milligrömm eða meira af koffíni í hverjum lítra.
Hann segir þó, í skriflegu svari við fyrirspurn Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur þingmanns Vinstri grænna um málið, að samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun hafi stofnunin óskað eftir því að áhættumatsnefnd meti áhættu af koffínneyslu ungmenna og samkvæmt upplýsingum frá formanni nefndarinnar vinni nefndin nú að slíku mati. „Í því skyni að meta raunverulega neyslu ungmenna á orkudrykkjum sem innihalda koffín verður framkvæmd neyslukönnun á meðal ungmenna. Neyslan verður borin saman við þekkt áhrif koffíns og í framhaldinu verði vísindalegt áhættumat framkvæmt til þess að meta hvort koffín hafi neikvæð áhrif á heilsu og líðan íslenskra ungmenna.“
Gríðarleg aukning hefur orðið hérlendis á skömmum tíma í neyslu orkudrykkja bæði á meðal framhaldsskólanema og meðal nemenda í áttunda til tíunda bekk grunnskóla. Meiri en helmingur framhaldsskólanema neytti orkudrykkja daglega á árinu 2018 og rúmlega þriðjungur tíunda bekkinga. Landlæknir telur að ekki ætti að selja drykki með meira en 150 milligrömm af koffíni börnum yngri en 18 ára. Þetta kom fram í rannsókn á vegum Rannsókna og greiningar við Háskólann í Reykjavík á neyslu orkudrykkja meðal barna og ungmenna, sem vitnað var í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Rósu Bjarkar um málið sem birt var í desember 2019.
Mikil aukning á neyslu hjá framhaldsskólanemum
Samkvæmt niðurstöðum meðal framhaldsskólanema var hlutfall þeirra sem daglega eða oftar neytti orkudrykkja 55 prósent árið 2018. Í fyrri könnun, sem gerð var árið 2016, var hlutfallið 22 prósent og er aukningin því gríðarleg milli ára.
Orkudrykkir eiga það sameiginlegt að innihalda koffín og flestir þeirra innihalda auk þess önnur virk efni. Magn koffíns getur þó verið nokkuð mismunandi eftir drykkjartegundum.
Í rannsókninni kom jafnframt fram að 78 prósent þeirra sem sofa of lítið (um sjö klukkustundir eða minna) drekka fjóra eða fleiri orkudrykki daglega sem innihalda koffín.
Þegar niðurstöður meðal grunnskólanema voru skoðaðar sást að alls neyttu 28 prósent nemenda í áttunda til tíunda bekk orkudrykkja daglega á árinu 2018. Það er töluverð aukning frá fyrri könnun sem gerð var 2016 en þá var hlutfallið 16 prósent.
Í niðurstöðunum má jafnframt sjá að dagleg neysla orkudrykkja eykst með hækkandi aldri hjá báðum kynjum en þó neyta fleiri strákar en stelpur orkudrykkja. Árið 2018 var hlutfallið 20 prósent í 8. bekk, 29 prósent í 9. bekk og 35 prósent í 10. bekk.
Mokgræða á Nocco
Nocco er ein þeirra orkudrykkjategunda sem notið hefur hvað mestra vinsælda hér á landi á síðustu árum. Heildsalan sem flytur þá inn til landsins, ásamt öðrum vörum, er Core og hafa rekstrartekjur Core aukist gífurlega á síðustu árum.
Í frétt Viðskiptablaðsins frá því í fyrra um tekjur Core segir að rekstrartekjur fyrirtækisins hafi numið 440 milljónum króna árið 2016 en árið 2018 voru þær komnar í tæpa 1,8 milljarða króna. Á tveimur árum jukust tekjurnar því um 310 prósent. Á sama tímabili jókst hagnaðurinn úr 23 milljónum króna í 193 milljónir, eða um 740 prósent.
Hafa lent á spítala eftir neyslu orkudrykkja
Samkvæmt upplýsingum frá Landspítala, sem greint var frá í áðurnefndu svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Rósu Bjarkar, hafa komið upp nokkur tilvik þar sem einstaklingar hafa leitað á bráðamóttöku með almenn einkenni vegna neyslu orkudrykkja. Algengustu einkenni eru hraður hjartsláttur, óróleikatilfinning, svimi, eirðarleysi og kvíði en engin staðfest alvarleg einkenni af völdum orkudrykkja meðal einstaklinga sem hafa leitað á bráðadeild.
Embætti Landlæknis telur, líkt og áður sagði, að banna ætti sölu á orkudrykkjum sem innihalda 320 milligrömm eða meira af koffíni á hvern lítra en slíka drykkja má ekki selja hér á landi nema með sérstökuleyfi Matvælastofnunar. Nokkrar slíkar vörur hafa fengið slíkt leyfi. Jafnframt telur Landlæknir að ekki ætti að selja drykki með koffíni á bilinu 150 til 230 milligrömm börnum yngri en 18 ára.