Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) hafa lagt fram kröfur sínar í 19 liðum gagnvart sjómönnum en miðillinn BB.is greindi fyrst frá í gær. Kjaraviðræður SFS við Sjómannafélag Íslands (SSÍ) standa nú yfir en fyrsti fundurinn var á þriðjudaginn í síðustu viku.
Valmundur Valmundsson, formaður SSÍ, segir í samtali við Kjarnann að þetta hafi verið hefðbundinn fundur og nú séu þau að fara yfir málin í baklandinu. Ekki sé búið að boða annan fund eins og stendur. „Við bíðum nú bara átekta og höldum fundi í okkar baklandi. Við þurfum að ræða málin og kynna þau fyrir félagsmönnum,“ segir hann.
Hann staðfestir í samtali við Kjarnann að SFS hafi sett fram þessar nítján kröfur en hann segir að þær hafi ekki komið þeim hjá Sjómannasambandinu á óvart enda hafi þau séð þær áður. „Mér líst ekkert á þær frekar en endranær,“ segir hann og bætir því við að hann búist ekki við því að SSÍ muni fallast á þessar kröfur.
Kjarninn hefur kröfur SFS undir höndum en fyrsta krafa er að sjómenn greiði hlut í sköttum útgerða, svo sem veiðigjaldi, tryggingargjaldi og kolefnisgjaldi. Þá er gerð krafa um að framlengja nýsmíðaálaginu og vill SFS að samið verði um nýsmíðaálag varðandi næstu kynslóð fiskiskipa. Jafnframt er ein krafan sú að kvótakaup frá erlendum aðilum verði dregin frá óskiptu, það er að sjómenn greiði kvótakaupin.
Kröfur SFS í kjaraviðræðum við Félag skipstjórnarmanna, Sjómannafélag Íslands, Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur, Sjómannasamband Íslands og VM-Félag vélstjóra og málmtæknimanna eru sem hér segir:
- Frádráttur vegna álaga stjórnvalda – Samið verði um hlutdeild sjómanna í álögum stjórnvalda, s.s. veiðigjaldi, tryggingagjaldi og kolefnisgjaldi.
- Kostnaður við slysatryggingar – Árið 2001 voru gerðar miklar breytingar á slysatryggingum sjómanna. Við breytingarnar var miðað við að sjómenn bæru um 1/3 af kostnaðinum. Forsendur þeirra breytinga hafa ekki staðist, hvorki hvað varðar mat á kostnaðarauka vegna þeirra né hlut sjómanna í honum. SFS gera þá kröfu að sjómenn greiði þriðjung iðgjalda slysatrygginga á hverjum tíma, auk þess sem endurskoðunarákvæði verði sett í samninga vegna þróunar á iðgjaldi eða breytinga á skaðabótalögum.
- Slysa- og veikindakaup – Aðlaga þarf réttindaumhverfi slysa- og veikindaréttar í skiptimannakerfum. Á síðastliðnum árum hefur aukist verulega að settar hafi verið skiptimannaáhafnir á skip, enda hefur það skapað betra starfsumhverfi um borð og innan fyrirtækjanna. Ákvæði sjómannalaga nr. 35/1985 víkja ekki að þessu róðralagi og álitamál er um túlkun 36. gr. laganna. Það á því að vera markmið samningsaðila að tryggja réttindaumhverfi skipverja og útgerða í skiptimannakerfum. Þannig þarf m.a. að tryggja að skipverjar í skiptimannakerfum sem verða fyrir óvinnufærni, skulu vera jafn settir fjárhagslega eins og þeir hefðu annars verið óforfallaðir.
- Breytingar á nýsmíðaákvæði og ákvæðum um ný og eldri skip – Samið verði um breytingu á nýsmíðaákvæði, m.a. þess efnis að úthaldsdagar skipa í togararalli Hafrannsóknarstofnunar eða öðrum verkefnum á vegum þeirrar stofnunar teljist ekki til úthaldsdaga þegar kemur að útreikningum og uppgjöri skv. nýsmíðaákvæði kjarasamninga. Þá verði samið um breytingu á ákvæði um ný skip m.t.t. smíða á næstu kynslóð fiskiskipa. Samið verði um ramma vegna smíði slíkra skipa, t.a.m. frystitogara, með það að markmiði að tryggja áhöfn samkeppnishæf laun og útgerð raunhæfar rekstrarforsendur.
- Um helgarfrí og hafnarfrí – Samið verði um að ákvæði kjarasamninga um helgarfrí falli út en skipverjum verði tryggðir frídagar eftir nánara samkomulagi áhafnar og útgerðar. Þá verði samið um að hafnarfrí megi taka í frítúrum á öllum veiðiskap. Sérstaklega verði fjallað um svonefndar millilandanir. Jafnframt falli niður sérákvæði um frí um páska og samið verði um styttingu á fríum á uppsjávarveiðum sem nú er frá og með 20. desember til og með 2. janúar.
- Aflaverðmæti jafnað yfir lengra tímabil en kauptryggingartímabil – Samið verði heimild til að jafna aflaverðmæti yfir lengra tímabil en kauptryggingartímabil. Lagt er til að tímabil kauptryggingar verði þrír mánuðir.
- Uppgjör á frystitogurum – Ákvæði um uppgjör á frystitogurum verði tekin til endurskoðunar. Samið verði um lengri tíma til að ljúka endanlegu uppgjöri. Þá verði samið um brottfall ákvæðis um að 90% uppgjör af áætluðu aflaverðmæti veiðiferðar skuli gert upp til sjómanna, en þess í stað fari fram heildaruppgjör veiðiferðar.
- Ráðning til útgerðar – Að samningsaðilar komi sér saman um sameiginlega afstöðu um breytingu á sjómannalögum nr. 35/1985, með það markmiði að heimilt verði að ráða sjómenn til útgerðar, í stað þess að sjómaður sé ráðinn til tilgreinds skips.
- Greiðslur í styrktar- og sjúkrasjóði – Fjallað verði um og eftir atvikum greiðslur endurskoðaðar í styrktar- og sjúkrasjóði.
- Skiptakjör og uppgjörsaðferðir – Farið verði yfir skiptakjör og uppgjörsaðferðir varðandi einstakar veiðigreinar.
- Heimild til ráðninga á öðrum kjörum en aflahlut – Samið verði um heimild til að ráða áhafnarmeðlimi á öðrum kjörum en aflahlut t.d. vegna vinnslu á aukaafurðum þar sem verðmætið stendur ekki undir hlut. Sama gildi um menn sem hafa engan eða skamman starfstíma til sjós.
- Heimild til að ráða fleiri en einn skipverja í eina stöðu háseta í hverri veiðiferð – Staðfest verði í kjarasamningi heimild til að ráða tvo eða fleiri skipverja í ákveðinn tíma í eina stöðu háseta eins og tíðkað hefur verið með þegjandi samkomulagi aðila, t.d. hálfdrættinga.
- Um sektarákvæði – Samið verði um að sektarákvæði verði felld niður í kjarasamningi.
- Samningar á Austfjörðum og Vestfjörðum – Samið verði um að sömu samningar gildi á öllu landinu.
- Kostnaður vegna geymslu afurða – Samið verði um fyrirkomulag samninga útgerðar og áhafnar um að fresta sölu afurða þannig að kostnaður vegna þess dragist frá óskiptu gegn hlut áhafnar í hærra söluverði.
- Uppgjör á rækju/fiskveiðum – Þar sem fiskur fæst með rækju fari uppgjör á aflahlut úr rækjuafla samkvæmt ákvæðum um rækjuveiðar en á fiski samkvæmt ákvæðum um fiskveiðar.
- Löndun á afla – Ákvæði kjarasamninga um löndun á afla uppsjávarfisks og annars fisks verði tekin til endurskoðunar.
- Kaup á aflamarki eða öðrum veiðiheimildum af erlendum aðilum – Samið verði um heimild útgerða til að draga kostnað við kaup á aflamarki eða öðrum veiðiheimildum af erlendum aðilum frá óskiptu. Um er að ræða veiðiheimildir eins og þær sem okkur stendur til boða að kaupa af Rússum í Barentshafi.
- Matsveinn – Ákvæði um aðstoðarmann matsveins falli brott. Auk þess sem krafa um matsvein á minni bátum verði felld brott.
Kröfur SSÍ í fimmtán liðum
Kröfur samninganefndar Sjómannasambands Íslands, vegna viðræðna við SFS um endurnýjun kjarasamninga sjómanna sem runnu út þann 1. desember 2019 og sem lagðar voru fram á fundi með SFS þann 11. febrúar síðastliðinn eru sem hér segir:
- Kauptryggingin og aðrir kaupliðir hækki.
- Fiskverð endurskoðað – Ákvörðun á verði uppsjávarafla sett í eðlilegt horf.
- Útgerðin greiði 3,5% mótframlag í lífeyrissjóð.
- Útgerðin greiði 0,3% framlag í menntasjóð sjómanna (Sjómennt).
- Útflutningur í gámum – vinna skipverja við ísun ekki leyfileg þegar aflinn hefur þegar verið seldur erlendum aðila, sbr. upphaflega merkingu ákvæðis 1.29.3. í gildandi kjarasamningi milli SSÍ og SFS.
- Slysavarnaskóli sjómanna – kostnaðargreiðslur útgerðar, þ.e. uppihald og ferðir, skilgreindar nánar en gert er í kjarasamningi.
- Ráðningarsamningar – lausráðningar.
- Frí um jól og áramót og um sjómannadag aukin.
- Trúnaðarmaður skipverja við uppgjör geti verið utanaðkomandi maður að vali skipverja og stéttarfélags viðkomandi skipverja.
- Vinna matsveina á uppsjávarskipum – vinna utan heimahafnar og lágmarks hvíldartími.
- Aukagreiðsla aðstoðarmanns matsveins á frystiskipum hækki verulega.
- Ávinnsla orlofs. – Verði samræmt við almenna vinnumarkaðinn.
- Vinnslustjórar og matsmenn á frystiskipum fái 1/8 hlut til viðbótar hásetahlut fyrir starfið í stað fastrar krónutölu nú.
- Bætur frá útgerð vegna afnáms sjómannaafsláttar.
- Skipverjar hafi frí við löndun á öllum veiðum, þ.m.t á dagróðrum.