Þeir tveir yfirlögregluþjónar og sjö aðstoðaryfirlögregluþjónar sem skrifuðu undir samkomulag við ríkislögreglustjóra um aukin lífeyrisréttindi hækkuðu mánaðarlaun sín að meðaltali um 48 prósent. Með samkomulaginu færðust 50 yfirvinnustundir inn í föst mánaðarlaun starfsmannanna, og með því aukast lífeyrisréttindi þeirra sem greiða iðgjöld í B-deild Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins (LSR). Heildaráhrif þeirrar aukningar er metin 309 milljónir króna.
Meðaltal fastra mánaðarlauna fyrir dagvinnu yfirlögregluþjóna og aðstoðaryfirlögregluþjóna hjá ríkislögreglustjóra fór úr um 672 þúsund krónum í um 986 þúsund krónur vegna samkomulags ríkislögreglustjóra. Meðaltalshækkun fastra mánaðarlauna fyrir dagvinnu umræddra starfsmanna í krónum talið var því um 314 þúsúnd krónur á mánuði og hlutfallsleg hækkun nam um 48 prósent.
Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn Ólafs Ísleifssonar, þingmanns Miðflokksins, um málið. Samkomulagið var gert 26. ágúst 2019, á meðan að Haraldur Johannessen sat enn í stóli ríkislögreglustjóra. Hann samþykkti að láta af störfum skömmu eftir gerð þess. Kostnaður vegna starfslokasamnings sem dómsmálaráðherra gerði við Harald Johannessen var 47,2 milljónir króna án launatengdra gjalda. Þegar þeim er bætt við er kostnaðurinn 56,7 milljónir króna.
309 milljón króna viðbótarkostnaður vegna lífeyrisgreiðslna
Í svarinu segir að alls hafi tveir yfirlögregluþjónar og sjö aðstoðaryfirlögregluþjónar skrifað undir samninganna. Einn aðstoðaryfirlögregluþjónn lét hins vegar af störfum vegna aldurs í lok desember 2019 en samkvæmt lögum ber embætti ríkislögreglustjóra því kostnaðinn af auknum skuldbindingum vegna hækkunar á lífeyri þess starfsmanns. Einn yfirlögregluþjónn og einn aðstoðaryfirlögregluþjónn eru hins vegar með óbreytt föst mánaðarlaun fyrir dagvinnu.
Ólafur spurði einnig um hvaða áhrif samningarnir hefðu á lífeyri umræddra starfsmanna. Í svari Bjarna segir að mat á hlutfallslegri hækkun lífeyris hjá B-deild LSR vegna réttinda yfirlögregluþjóna og aðstoðaryfirlögregluþjóna hjá embætti ríkislögreglustjóra byggist á upplýsingum sem ráðuneytið fékk frá Fjársýslu ríkisins, LSR og Talnakönnun hf. „Niðurstaðan er að skuldbindingar miðað við launin áður en samkomulagið var gert voru 563 millj. kr. en verða 872 millj. kr. miðað við launin samkvæmt samkomulaginu. Samkomulag ríkislögreglustjóra leiðir því til hækkunar um 309 millj. kr. vegna umræddra starfsmanna.“ Hlutfallsleg hækkun lífeyris þeirra af fyrrgreindum ástæðum nemur því um 55 prósentum. Því til viðbótar er hækkun sem embætti ríkislögreglustjóra ber sjálft kostnað af að fjárhæð 51 milljón króna og hliðstæður kostnaður embættis lögreglustjórans á Suðurnesjum nemur um 66 milljónum króna.