Framboð Donalds Trumps Bandaríkjaforseta hefur nú þegar keypt bróðurpartinn af auglýsingaplássi á forsíðu Youtube, fyrir kjördag forsetakosninga í Bandaríkjunum 3. nóvember næstkomandi.
Frá þessu var greint á vef Bloomberg í morgun.
Trump fetar með þessu í fótspor Barack Obama en framboð hans keypti sambærileg auglýsingapláss í byrjun árs 2012, vegna forsetakosninganna í nóvember það ár.
Þá var Obama endurkjörinn forseti, en hann var fyrst kosinn í nóvember 2008.
Talið er að kostnaðurinn við auglýsingu eins og þessa, á besta stað á forsíðu Youtube á kjördegi, sé allt að ein milljón Bandaríkjadala, eða sem nemur um 127 milljónum króna.
Mikil spenna er nú farin að færast í kosningabaráttuna í Bandaríkjunum, en á meðal Demókrata stendur Bernie Sanders best að vígi, sé mið tekið af spálíkani FiveThirtyEight.
Trump þykir standa nokkuð vel að vígi, samkvæmt líkani FiveThirtyEight, en um 44 prósent kjósenda styðja hann, en um 51 prósent á móti, sé litið til nýjustu talna.
Nær allt kjörtímabilið, frá því Trump var kosinn í nóvember 2016, hefur hann mælst með töluvert meiri andstöðu en stuðning, en slíkt er þó alþekkt meðal sitjandi forseta á hverjum tíma.
Mest hefur andstaðan nælst um 60 prósent, og minnstur hefur stuðningurinn á kjörtímabilinu farið í 37 prósent, sé mið tekið af FiveThirtyEight.