Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, spurði í fyrirspurn til dómsmálaráðherrans, Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, hve langir fangelsisdómar, skilorðsbundnir og óskilorðsbundnir hefðu verið síðastliðin 5 ár að meðaltali, í mánuðum talið, fyrir hverja milljón króna sem stungið hefði verið undan eða stolið, sundurliðað eftir skattsvikum og þjófnaði.
Í öðru lagi spurði hann hve háar bætur að meðaltali hefðu síðastliðin 5 ár verið dæmdar brotaþolum vegna ólögmætrar uppsagnar, líkamsárásar og nauðgunar.
Í svari dómsmálaráðherra kemur fram að samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkissaksóknara sé ekki hægt að svara fyrirspurninni út frá þeim upplýsingum og kerfum sem lögregla og ákæruvald býr yfir.
„Skráning í upplýsingakerfi dómstólanna býður ekki upp á að hægt sé að taka umbeðnar upplýsingar út með einföldum hætti, að því er dómstólasýslan segir. Þá skráir Fangelsismálastofnun ríkisins lengd refsinga og hvort um skilorðsbundinn dóm eða óskilorðsbundinn dóm sé að ræða sem og þau lagaákvæði sem dómþoli brýtur gegn en ekki nánar eðli þeirra brota sem sakfellt er fyrir, þar á meðal þær fjárhæðir sem um ræðir,“ segir í svarinu.
Þá kemur fram að til þess að svara fyrirspurninni þyrfti að fara yfir öll mál sérstaklega en slík úttekt yrði svo umfangsmikil að ekki væri hægt að svara fyrirspurninni í stuttu máli.