Alþjóðaheilbrigðisstofnunin WHO kvatti þjóðir heims, til að efla viðbúnað sinn vegna kórónaveirunnar.
Þá telur stofnunin að meira þurfi til þess að hefta útbreiðslu veirunnar, sem nú hefur greinst í 26 löndum, hjá 1.152 einstaklingum, utan Kína.
Viðbúnaður hefur nú verið aukinn í Bandaríkjunum, meðal annars á alþjóðaflugvöllum.
Í Kína hefur veiran dreifst hratt að undanförnu, en tæplega 77 þúsund tilfelli hafa nú verið staðfest í Kína, og þar af hafa 2.239 látið lífð, að því er fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins BBC.
Veiran og aðgerðir sem kínversk stjórnvöld hafa gripið til, hafa haft gríðarlega áhrif í Kína, sé litið til efnahagsmála.
T.d. hefur bílasala fallið um 92 prósent, að því er fram kemur á vef New York Times, og þá hefur flugumferð snarminnkað, og mest í nágrenni Wuhan – þar sem veiran greindist fyrst - eða um 80 prósent.
Talið er að áhrifin eigi eftir að verða enn meiri, meðal annars á smásölumarkaði, en víðtækar aðgerðir stjórnvalda – meðal annars með útgöngubönnum og takmörkunum á vöruflutninga – hafa haft víða lamandi áhrif á atvinnuvegi.
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin segir að nýlega greind tilfelli í Íran, séu alvarleg og óttast er að veiran geti breiðst þar hratt út. Það sama á við um svæði í grennd, þar sem innviðir í heilbrigðisþjónustu eru veikir.