Samninganefnd Eflingar gagnvart Reykjavíkurborg hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem fram kemur að nefndin telji yfirlýsingar borgarinnar og Dags B. Eggertssonar borgarstjóra í fjölmiðlum fyrir helgi gefa til kynna að borgin sé tilbúin að koma betur til móts við Eflingarfélaga en kynnt hafi verið á undangengnum samningafundi. Nefndin telur að með yfirlýsingum sínum hafi Reykjavíkurborg þannig hugsanlega skapað meiri grundvöll til áframhalds viðræðna en ætlað var og kallar hún eftir staðfestingu borgarinnar á því.
„Yfirlýsingu borgarinnar undir yfirskriftinni „Tilboð Reykjavíkurborgar fyrir starfsfólk hjá Eflingu“ á heimasíðu borgarinnar, dagsett 20. febrúar, er ekki hægt að skilja öðruvísi en svo að tilboð um hækkun grunnlauna um 20 þúsund krónur umfram 90 þúsund króna heildarhækkun grunnmánaðarlauna að fordæmi Lífskjarasamningsins nái til allra ófaglærðra félagsmanna Eflingar á leikskólum borgarinnar annarra en deildarstjóra,“ segir í yfirlýsingunni.
Samninganefndin lítur svo á að með þessari yfirlýsingu hafi Reykjavíkurborg nálgast kröfur félagsmanna Eflingar meir en gefið hafi verið til kynna á áðurnefndum samningafundi, þar sem tilboðið hafi verið kynnt á þeim forsendum að það næði aðeins til tveggja starfsheita almennra ófaglærðra leikskólastarfsmanna. Engir fyrirvarar séu um slíkt í yfirlýsingunni.
Segja samninganefnd borgarinnar hafa skilyrt ákveðinn hluta grunnlaunahækkana
Jafnframt horfir samninganefndin til þess að í tilkynningum borgarinnar og í ummælum borgarstjóra séu grunnlaunahækkanir umfram Lífskjarasamninginn boðnar án fyrirvara um hvaða leiðir yrðu farnar til að ná þeim fram. Á fundi hjá ríkissáttasemjara hafi samninganefnd borgarinnar skilyrt ákveðinn hluta grunnlaunahækkana því að fram færi handstýrð endurskoðun á starfsmati tiltekinna starfsheita. Samninganefnd Eflingar hafi lýst þá og þegar efasemdum um að sú leið væri stjórnskipulega fær.
„Starfsmat fer eftir fyrirfram skilgreindum mælikvörðum sem Reykjavíkurborg, Samband íslenskra sveitarfélaga og fjöldi stéttarfélaga hafa undirgengist. Í því er ekki fjallað um launasetningu og aldrei hefur tíðkast að semja um handstýrt endurmat á starfsmati einstakra starfa í kjarasamningum sem Efling hefur átt aðild að,“ segir í yfirlýsingunni.
Þá kemur fram að athugasemdum samninganefndar Eflingar um handstýrt starfsmat einstakra starfa hafi ekki verið svarað efnislega af fulltrúm Reykjavíkurborgar á samningafundinum. Engu að síður hafi borgin nú opinberlega lýst sig reiðbúna til að framkvæma áðurnefnda viðbótarhækkun grunnlauna að upphæð 20 þúsund krónur. Hafi sú tala verið kynnt fyrir almenningi og ratað í fjölmiðla án þess að borgin hafi skilyrt hækkunina handstýrðri endurskoðun starfsmats tiltekinna starfa.
„Í ljósi þessa lítur samninganefnd Eflingar svo á að borgin hafi með opinberum yfirlýsingum sínum nálgast kröfur Eflingarfélaga með óskilyrtari hætti en gefið var til kynna á samningafundi.
Samninganefnd Eflingar bendir einnig á að jafnvel þótt tilboð borgarinnar, eins og því er lýst í tilkynningu á vef hennar, hafi aðeins átt að ná til starfsfólks leikskóla, þá hefur tilboðinu verið lýst í fjölmiðlum eins og það sé sambærilegt við tilboð Eflingar, sem náði til allra borgarstarfsmanna. Dæmi um þetta er umfjöllun í sjónvarpsfréttum RÚV 20. febrúar. Borgin hefur ekki sérstaklega leitast við að leiðrétta þetta. Enda þótt leikskólastarfsfólk séu fjölmennasti hópurinn meðal félagsmanna Eflingar hjá borginni þá hefur samninganefndin ávallt lagt áherslu á að kröfur um launaleiðréttingu nái til allra sögulega vanmetinna kvennastarfa þar sem álag er mikið og heildarlaun óbærilega lág. Ljóst er að þessi skilyrði eiga einnig við um félagsmenn Eflingar sem starfa við umönnun aldraðra og fatlaðs fólks innan Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og í eldhúsum og mötuneytum þvert á fagsvið borgarinnar. Samninganefnd Eflingar gerir því þá eðlilegu kröfu að umræddar grunnlaunahækkanir nái einnig til launa þessara hópa,“ segir í yfirlýsingunni.
Mikilvægt skref stigið í samkomulagsátt
Með hliðsjón af ofangreindu lýsir samninganefnd Eflingar sig reiðubúna til að ganga nú þegar til viðræðna við samninganefnd Reykjavíkurborgar á þeim breyttu forsendum sem Efling telur að opinberar yfirlýsingar borgarinnar fyrir helgi hafi skapað, sem séu aðrar og lausnamiðaðri en það sem kynnt var á samningafundi.
Þar verði gengið út frá þeim skilningi að borgin hafi í reynd boðið skilyrðislausa hækkun grunnmánaðarlauna í grunnþrepi um 110 þúsund krónur fyrir alla almenna ófaglærða starfsmenn leikskóla. Jafnframt kallar samninganefnd Eflingar eftir því að samninganefndirnar sameinist um þann skilning, sem þegar virðist hafa skapast í umræðunni, að tilboð borgarinnar um umræddar hækkanir eigi ekki aðeins við um leikskólastarfsmenn heldur alla félagsmenn Eflingar hjá borginni í sögulega vanmetnum kvennastörfum þar sem álag er mikið og heildarlaun lág, óháð sviðum.
Sé sátt um þessar forsendur telur samninganefndin að mikilvægt skref hafi verið stigið í samkomulagsátt, jafnvel þótt enn sé nokkuð í land. Helsta óleysta viðfangsefni viðræðnanna yrði þá að ná saman um endalegar leiðréttingarupphæðir, útfæra hvernig eldri sérgreiðslur verði endurskilgreindar og umreiknaðar í tilfelli ólíkra starfa, sem og fleiri atriði ótalin hér.
Sérstaklega er tekið fram að í þessari yfirlýsingu felist ekki skuldbinding af hálfu samninganefndar Eflingar um lokaniðurstöðu viðræðna en hún var send til borgarstjóra, formanns samninganefndar Reykjavíkurborgar og ríkissáttasemjara.